Ætlum að gera okkar allra besta; ONI tekur þátt í Wacken Metal Battle Iceland
Metalhljómsveitin ONI frá Neskaupstað tekur þátt í hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle Iceland verður haldin í Norðurljósasal Hörpu á morgun.ONI skipa þeir Brynjar Örn Rúnarsson, Róbert Þór Guðmundsson, Daníel Magnús Bergmann Ásgerisson og Þorsteinn Árnason. Sveitin hefur leikið víða um land síðustu ár og troðið upp með mörgum af stærstu nöfnunum í íslensku rokki, svo sem Brain Police, Dimmu og fleirum, auk þess að leika á Eistnaflugi við góðar undirtektir.
Sigur gefur þátttökurétt í enn stærri keppni
Sex íslenskar sveitir taka þátt í keppninni, en auk ONI eru það sveitirnar Auðn, Churchhouse Creepers, In The Company Of Men, Narthraal og Röskun. Til mikils er að vinna, en sigurvegararnir fara á Wacken Open Air, stærsta þungarokksfestival heims og spila þar fyrir mörg þúsund manns og taka þar með þátt í lokakeppni Wacken Metal Battle ásamt 29 öðrum þjóðum.
Sigursveitin er valin af alþjóðlegri dómnefnd, en sex erlendir þungarokksblaðamenn frá Finnlandi, Danmörku, Bretlandi og Frakklandi og nokkrir erlendir tónlistarfagaðilar til viðbótar sitja í dómnefnd, ásamt nokkrum íslenskum blaða- og fjölmiðlamönnum og fagaðilum.
Það getur enginn tapað á því að vera með
Strákunum var bent á að sækja um inngöngu í keppnina eftir þeir höfðu spilað á Gauknum, gerðu það og munu standa í Norðurljósasalnum á morgun. Daníel Magnús var að vonum orðinn spenntur þegar Austurfrétt náði tali af honum.
„Þetta er mjög stór keppni. Við höfum 20 mínútur á sviðinu og ætlum að gera okkar allra besta. Það getur enginn tapað á því að vera með, bara grætt."
„Það er auðvitað mikill heiður að fá að spila í Hörpunni og ef við vinnum og komumst út í áframhaldandi keppni væri það besta auglýsing sem við mögulega gætum fengið, auk þess sem við hefðum tækifæri til þess að mynda ómetanleg tengsl við rétta fólkið."
Atkvæði áhorfenda skipta máli
Áhorfendur í sal hafa einnig atkvæðisrétt til móts við dómnefnd. „Ég veit um marga sem eru á leiðinni suður til þess að fara á keppnina. Ég vil bara hvetja alla til þess að koma og styðja okkur, en þeir sem mæta tímalega fá atkvæðisrétt."
Aðspurður um sigurlíkur segir Daníel Magnús. „Við erum að sjálfsögðu langbestir! Nei, nei. Ég held að það sé enginn augljós sigurvegari í hópnum. Sveitirnar eru með mjög fjölbreytt og gott efni og í raun finnst þær allar vera á pari. Það er alveg á hreinu að sigursveitin á skilið að fara út, sama hver hún verður."