Jónína Brá nýr atvinnu-menningar- og íþróttafulltrúi hjá Seyðisfjarðarkaupstað í yfirheyrslu: Dagarnir mínir eru allskonar

Jonina bra arnadottirJónína Brá Árnadóttir tekur við nýju starfi atvinnu-menningar- og íþróttafulltrúa hjá Seyðisfjarðarkaupstað þann 20. apríl næstkomandi. Þar mun hún hafa umsjón með starfsemi sveitarfélagsins sem tengist viðkomandi sviðum auk þess að hafa umsjón með kynningarmálum þess.

Jónína Brá er uppalin á Egilsstöðum en flutti þaðan til Reykjavíkur til að nema mannfræði við Háskóla Íslands. Eftir útskrift frá HÍ fór hún í áframhaldandi nám til Danmörku og útskrifaðist frá Háskólanum í Árósum árið 2013. Samhliða námi og eftir nám ferðaðist hún mikið. En undanfarin misseri hefur hún búið í Reykjavík og unnið sem verkefnastjóri, markaðsstjóri og forfallakennari, svo eitthvað sé nefnt.

En er okkar kona spennt að takast á við nýja starfið? „Ég er virkilega spennt að takast á við þetta krefjandi, en jafnframt spennandi starf. Og ég hlakka mikið til að takast á við verkefnin sem að bíða mín. Þetta er nýtt starf sem að mótast eftir því sem verkefnin vinnast. Umfram allt er þetta, að ég held, lifandi starf sem krefst mikilla samskipta við fólk, sem er frábært. Ég hlakka mikið til að flytja til Seyðisfjarðar, kynnast fólkinu, umhverfinu og bæjarbragnum í bænum.“

Hvaða verkefni eru framundan? "Núna snýst allt um að flytja mig og mitt hafurtask austur á land þessa dagana, finna íbúð og svo þarf ég líka að kaupa mér bíl. En svo er það fyrst og fremst að koma mér inn í nýja starfið, kynnast samstarfsfólkinu og átta mig á næstu verkefnum," segur Jónína sem er í yfirheyrslu að þessu sinni.

Fullt nafn: Jónína Brá Árnadóttir
Aldur: 29 ára
Starf: Nýráðin atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi hjá Seyðisfjarðarkaupstað
Maki: Kári Lefever
Börn: Engin börn ennþá

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Hreimsstaðir, jörð í eigu fjölskyldunnar, er í fyrsta sæti. Þar er ansi gott að vera, tala nú ekki um þegar gróðurhúsið þar er uppfullt af grænmeti, berjum og öðru lostæti. Annars koma Þerribjörg og Borgarfjörður Eystri líka sterkt inn, ásamt Snæfelli og Hallormsstað.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
Smjör, egg og lýsi (aðallega af því ég gleymi alltaf að taka lýsið).

Hvaða töfralausn trúir þú á?
Trúi ekki á töfralausnir, best að vinna vel að því að finna lausnirnar sjálfur.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Hreindýrakjöt. Svo gerir Kári líka svakalegar samlokur!

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Fer út að borða „gúrmei“ mat með Kára.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju?
Ég var og hef alltaf verið mikil vormanneskja, en haustið er farið að toga svolítið í mig – það er eitthvað við haustið; uppskerutími með ótrúlegum litum. Það er fátt betra en að vera úti í náttúrunni á þessum árstíma.

Hvað eldar þú oft í viku?
Fer allt eftir vikunni. Við Kári erum ansi samstíga í eldamennskunni og deilist þetta jafnt á okkur. Annars höfum við búið í göngufæri við miðbæ Reykjavíkur og mætti alveg færa rök fyrir því að við færum óhóflega oft út að borða.

Hvernig líta kosífötin þín út?
Joggingbuxur og náttsloppur.

Hvað bræðir þig?
Fallegt bros og einlægni.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Núðlusúpa á NoodleStation.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt?
Svart.

Syngur þú í sturtu?
Stundum.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Bara allskonar, enginn dagur eins. Fasti punkturinn er kannski morgunkaffið.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju?
Laugardagur – ekkert stress, útsofelsi og frídagur á morgun.

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Pakka í kassa, knúsa vini og fjölskyldu og kaupa mér bíl.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.