„Við vitum að Austfirðingar hafa frábæran húmor": Mið-Ísland verður í Egilsbúð í kvöld
![mid island](/images/stories/news/2015/mid_island.jpg)
Strákarnir í Mið-Íslandi verða með uppistand í Egilsbúð í kvöld, en það er VA sem stendur fyrir atburðinum.
Kvöldið leggst vel í Rúnar Má Theódórsson, meðlim í nemendaráði VA.
„Við erum að safna fyrir árshátíðinni okkar sem verður í lok apríl. Okkur langaði því að vera með skemmtilegan viðburð fyrir alla og vitum að Mið-Ísland uppfyllir þær kröfur. Hluti hópsins kom hingað fyrir tveimur árum og fyllti húsið, þannig við megum búast við að þakið rifni af í kvöld," sagði Rúnar Már.
Austurfrétt náði tali af Birni Braga Arnarsyni rétt áður en hópurinn hoppaði upp í flugvél á leið sinni austur.
„Við erum hrikalega spenntir. Við erum búnir að sýna þessa sýningu yfir 50 sinnum í Þjóðleikhúskjallaranum, en það er alltaf gaman að koma á nýja staði. Við vitum að Austfirðingar eru með frábæran húmor þannig að það er frábært kvöld í vændum," sagði Björn Bragi.
Boðið verður uppá tvær sýningar, annars vegar klukkan 17:30 og hins vegar klukkan 20:00. Almennt miðaverð er 3000 krónur, en 2500 fyrir nemendur VA.