Villi Vill sjötugur, stórtónleikar á Neskaupstað: Sýning sem nærir hjartað ekki síður en andann - myndir

Villi 1Þann 11. apríl síðastliðin voru 70 ár því að Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson fæddist í Merkinesi í Höfnum á Suðurnesjunum. Fólk man ljúfa tenórrödd þessa ástsæla dægurlagasöngvara og það sem meira er, ungt fólk sem fætt er löngu eftir fráfall Vilhjálms dáir lögin sem hann gerði að sínum með persónulegum og áreynslulausum söngstíl.

Til að fagna þessum tímamótum stóðu Rigg viðburðir fyrir glæsilegum tónleikum í Hörpu um liðna helgi. Þar var Friðrik Ómar Hjörleifsson fremstur í flokki og flutti fjölda laga sem Vilhjálmur söng á sínum ferli ásamt færustu hljóðfæraleikurum íslensku þjóðarinnar og valinkunnum gestasöngvurum eins og Guðrúnu Gunnars, Ernu Hrönn, Margréti Eir og Jógvan Hansen.

Nú er þessi fríði flokkur á leiðinni á Austurland og mun halda sömu glæsilegu tónleikana í íþróttahúsinu í Neskaupsstað á föstudaginn, þann 17. apríl næstkomandi.

Austfirðingar eiga von á glæsilegri skemmtun

Allt frá því að samstarf Friðriks Ómars og Guðrúnar Gunnarsdóttur hófst árið 2003 hefur Friðrik sungið lög Vilhjálms víða um land við góðan orðstír. Björt og fögur söngröddin minnir óneitanlega á áferð raddar Vilhjálms og ekki síður skýrmælgin sem einkenndi söng Vilhjálms.

„Við vorum með tvenna uppselda tónleika í Eldborg síðustu helgi og fengum alveg gríðarlega sterk viðbrögð og góða dóma. Við erum varla lent þetta heppnaðist svo vel, og það myndaðist gríðarlega góð stemning. Austfirðingar eiga því von á glæsilegri skemmtun á föstudaginn,“ segir Friðrik Ómar í samtali við Austurfrétt.

Erum spennt að koma

En af hverju valdirðu að halda tónleikana í Neskaupstað? „Ég hef verið að setja upp stórar sýningar núna í fjögur ár og ég hef alltaf verið að leita leiða til að koma víðar við en bara í Reykjavík og á Akureyri. Ég valdi Neskaupstað því mér hefur fundist vera svo skemmtileg tónlistarmenning í bænum, en það er óhætt að segja að við erum að renna svolítið blint í sjóinn. Þetta er ákveðin prófsteinn núna, en við ákváðum að kíla á þetta í samstarfi við Hljóðkerfaleigu Austurlands og sjá hvað setur. Ég er bara rosalega bjartsýnn og við erum virkilega spennt að koma,“ segir Friðrik Ómar að lokum.

Nærir hjartað og andann

Guðlaug Fjóla Arnardóttir gagnrýnandi á Fréttanetinu hafði þetta um sýninguna að segja: „Friðrik Ómar má vera virkilega stoltur af þessari afmælissýningu. Hljómsveitin með honum var í einu orði sagt frábær. Guðrún hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði „þessi gaur“ um Friðrik Ómar sem hefur vaxið óhemju mikið undanfarin ár sem söngvari. Þessi einlæga afmælissýning fær topp einkunn 5 stjörnur af 5 mögulegum. Undirrituð mælir eindregið með því að Austfirðingar og Norðlendingar skundi á afmælissýninguna þegar hún verður haldin í þeirra heimabyggð dagana 17. og 18. apríl. Þetta er sýning sem nærir hjartað ekki síður en andann.“ Það má sjá umsögnina í heild sinni HÉR.

Tónleikarnar fara fram eins og áður sagði í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Húsið opnar kl 19:30 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 20:30. Miða í forsölu er hægt á nálgast í versluninni Vaski á Egilsstöðum, versluninni Kristal í Neskaupstað og á midi.is, eins verður hægt að kaupa miða við innganginn.

Myndir: Eggert Jóhannsson
Villi 9
villi 8
villi 7
villi 6
villi 4
villi 3
villi 2

villi-5
Vilhjálmur Vilhjálmsson 70

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar