Ágóðinn rennur til góðgerðarmála innan fjallahringsins: Nytjamarkaðurinn Steinninn í Neskaupstað
![nesk web](/images/stories/news/2015/nesk_web.jpg)
Elín Anna Hermannsdóttir er í forsvari fyrir markaðinn, en auk hennar koma þau Nanna Baldursdóttir, Maria Lind Kristjánsdóttir, Sara Bjarnveig Bjarnadóttir, Siggi Jensson og Áshildur Sigurðardóttir að verkefninu.
Fjölmargir njóta góðs af starfinu
Þrjú ár eru síðan Steinninn tók til starfa og er hann opinn á laugardögum milli 13 og 17.
„Við viljum gefa nýtilegum hlutum framhaldslíf, en það eru ekki allir sem vilja fara með hluti á gámavellina, sem aðrir væru kannski tilbúnir til þess að borga eitthvað smávegis fyrir og styrkja þannig gott málefni," segir Elín Anna.
Elín Anna segir að um algera sjálfboðavinnu innan hópsins sé að ræða og öll innkoma fer í að greiða húsaleigu, rafmagn og viðhaldskostnað – en þó fyrst og fremst beint til góðgerðarmála af ýmsum toga, helst innan fjallahringsins. Langveik börn og fjölskyldur þeirra, eldri borgarar, sjúkrahúsið, Rauði krossinn, mæðrastyrksnefnd og einstæðir feður eru meðal þeirra sem hafa hlotið góðs af starfi Steinsins.
Fyrsta útgáfa af Matadorspilinu
Elín Anna segir fólk í bænum, sem og stöðunum í kring, vera duglegt að færa þeim hluti. „Auðvitað kemur inn mismikið af dóti, stundum þurfum við að senda út hálfgert neyðarkall til almennings ef hillurnar eru orðnar daprar, en það kemur ekki oft fyrir. Það er fátt eins spennandi og að fá kassa sem maður hefur ekki hugmynd um hvað kemur upp úr.
Við höfum fengið töluvert af tekkhlutum, sem eru í hátísku í dag. Einnig silfurmuni í haugum og þá er ég að tala um alvöru silfur. Við höfum ekki selt þessa hluti dýrum dómum, enda okkar mottó að sem flestir hafi efni á að versla hjá okkur.
Stundum fáum við einnig hluti sem við höfum enga hugmynd um að séu merkilegir – eins og Matadorspilið sem við fengum og reyndist vera fyrsta útgáfa samkvæmt safnarabúðum og ætti með réttu að seljast á 30 þúsund krónur. Við höfum einnig tekið hluti í umboðssölu, þá með 15% sölulaunum," segir Elín Anna.
„Aðsóknin til okkar er góð, fólk kemur í stríðum straumum, þó ekki nema til þess að fá sér kaffisopa og spjalla. Við finnum fyrir miklum áhuga á endurnýtingu hluta, sérstaklega eftir að fólk fór að sjá árangur hjá okkur og hvað við getum lagt til samfélagssins. Fólk kaupir mest af bókum, eldhúsáhöldum, barnavörum, húsgögnum og fatnaði. Auk þess er mikil eftirspurn eftir eldri og fallegri hlutum. Raftæki eru líka mjög eftirsótt en segja má að það sem ekki selst hjá okkur sé þá ekki nothæft. Við höfum einnig verið svo heppin að geta boðið upp á frosinn fisk, kinnar, gellur, saltfisk,fiskibollur og einstaka sinnum siginn fisk."
Geta ekki allir státað sig af því að hafa farið í steininn
Steinninn er upprunarlega nafn hússins og sá hópurinn ekki ástæðu til að breyta því. „Allir bæjarbúar vita hvaða hús þetta er, en við erum í kjallara þess. Steinninn er líka fínt nafn – það eru ekki allir sem geta státað sig af því að hafa farið í steininn, en við vinnum þar."
Hópurinn í Steininum sér ekkert því til fyrirstöðu en að halda rekstrinum áfram. „Framtíðin okkar er björt, ef það minnsta þangað til húsið verður selt ofan af okkur. Það yrði erfitt því það er ekki hlaupið að því að fá húsnæði á viðráðanlegu verði í bænum. Sparisjóðurinn á húsnæðið og hann verið okkur afar hliðhollur – við greiðum mjög lága leigu sem er forsenda þess að dæmið gangi upp og og við erum þeim afar þakklát fyrir vikið."
![steinninn2p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn2p.jpg)
![steinninn3p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn3p.jpg)
![steinninn4p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn4p.jpg)
![steinninn5p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn5p.jpg)
![steinninn6p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn6p.jpg)
![steinninn9p](/images/stories/news/2015/steinninn/steinninn9p.jpg)