Kristín Ágústsdóttir nýr forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands í yfirheyrslu: Er með óútskýrða þörf fyrir að kaupa sultur

Kristín ÁgústsdóttirKristín Ágústsdóttir Landfræðingur var í fréttum í vikunni þegar tilkynnt var að hún hafi verið ráðin í starf forstöðumanns Náttúrustofu Austurlands frá og með 1. Júní.

Kristín sem er fædd og uppalin á Neskaupstað hefur starfað við margs konar rannsóknir hjá Náttúrustofu Austurlands frá árinu 1999 og þekkir því vel til starfseminnar. Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur og snjóeftirlitsmaður hjá Veðurstofunni, sérfræðingur hjá Verkfræðistofunni Hönnun, aðstoðarmaður Alþingismanns, fréttaritari Morgunblaðsins og setið í ýmsum nefndum á vegum Fjarðabyggðar. Þá hefur hún starfað í hafrannsóknahópi hjá Marsýn við Háskóla Íslands.

En í hverju felst nýja starfið? „Að hafa yfirumsjón með starfssemi Náttúrustofunnar, tryggja vellíðan starfsfólks, móta rannsóknastefnu og vonandi efla rannsóknir. Leita nýrra verkefna og sinna samskiptum við nærsamfélagið, aðrar Náttúrustofur og rannsóknastofnanir,“ segir Kristín í samtali við Austurfrétt.

Kristín hefur lokið B.Sc. námi í landfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. námi í eðlisrænni landfræði og vistkerfisgreiningum frá Háskólanum í Lundi. Auk þess hefur hún B.Ed. kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri. En hvað gera landfræðingar?

„Það getur nú verið afar fjölbreytilegt. Sumir sérhæfa sig í félagsfræði innan landfræðinnar, aðrir í hagfræði. Ég er í náttúrulandafræði og hef mestan áhuga á að greina hvar fyrirbæri í náttúrunni finnast og reyna svo skilgreina hvað einkennir svæðin þar sem þau finnast. T.d. hef ég nýlega skoðað hvar makríll veiðist við Ísland og í framhaldinu hef ég svo reynt að lýsa því hvað það er sem helst einkennir staðina í hafinu þar sem hann veiðist. T.d. út frá sjávarhita, sólargeislun, tærleika sjávar, plöntusvifi og öðrum þáttum. Landfræðingur getur þannig alveg unnið með rannsóknir í sjó þó það hljómi kannski mótsagnakennt.“

Ertu spennt að takast á við nýja starfið? „Já mjög svo. Á Stofunni er hæfileikaríkt starfsfólk sem gefur möguleika á að sinna allskonar áhugaverðum og skemmtilegum verkefnum sem lúta að rannsóknum á náttúrufari Austurlands og Íslands,“ segir Kristín sem er í yfirheyrslu þessa vikunna.

Fullt nafn: Kristín Ágústsdóttir
Aldur: 42 ára
Starf: Sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands og hjá Marsýn
Maki: Marinó Stefánsson
Börn: Anna Karen (13), Börkur (12) og Hrefna Ágústa (7)

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Klárlega skíðasvæðið í Oddsskarði á veturna. En á sumrin eru það einkum nokkrir staðir á Gerpissvæðinu sem erfitt er að gera upp á milli, t.d. Barðsnes í kvöldsólinni, Hellisfjörður, Sandvík, Hjallaskógur og Urðirnar í Norðfirði.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
Ólívur, sultur og ostur. Sulturnar eru nú ekkert endilega borðaðar, er bara með óútskýrða þörf fyrir að kaupa sultur. Hef samt tekið mig á í seinni tíð.

Hvaða töfralausn trúir þú á?
Vertu breytingin sem þig langar til að sjá.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Heimagerð humarpitsa eða sushi með hvítvíni.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Oft langar mig að hanga heima og púsla Wasgii púslur með hjálp frá hinum fjölskyldu-meðlimunum af og til. Gef mér því miður of sjaldan tíma til þess, það er helst á jólunum. Ef það er sól og blíða er freistandi að setjast út í sólina með ískaldan drykk og næra sálina á spjalli við vini og vandamenn eða lesa góða bók.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju?
Sumarið af því ég heillast af björtum sumarnóttum og lognstilltum stundum eldsnemma morguns áður en hafgolan fer að láta á sér kræla og áður en þorpsbúar fara á stjá. Svo heillast ég nú reyndar líka mikið af vetrinum með myrkrinu og vondum veðrum sem honum tilheyra. Það er einhver kósý stemmning í því.

Hvað eldar þú oft í viku?
Þarf ég virkilega að svara þessu? Sirka 0,3 sinnum myndi ég giska á. Ég er talsmaður þess að hæfileikar heimilismanna fái að njóta sín í eldamennskunni. Þess vegna er ég sjaldan beðin um að elda.

Hvernig líta kosífötin þín út?
Glæsilega

Hvað bræðir þig?
Kallinn og börnin, knús og einlægt bros, hjalandi ungabörn, hvolpar og kettlingar.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Sushi

Hvernig drekkur þú kaffið þitt?
Stanslaust (og með mjólk)

Syngur þú í sturtu?
Já, gera það ekki allir?

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Snýst mikið um að slökkva elda. Redda einu og öðru, muna sumt og gleyma öðru.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju?
Föstudagur...þarfnast það nokkuð útskýringa? Helgarfrí, rólegheitakvöld, engin þarf að vakna snemma...

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Fara á skíðamót og fótboltamót með yngsta barnið. Njóta vorsins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.