Anddyri Austurlands: Upplýsingamiðstöð og Hús handanna á Egilsstöðum
![Nían -mynd](/images/stories/news/Nían_-mynd.jpg)
Starfshópur sem skipaður var um málið komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að Upplýsingamiðstöð Austurlands væri í Húsi Handanna. Talið var að þessi breyting gæti orðið farsæl fyrir báða aðila þar sem ekki síst væri byggt á reynslu Húss Handanna, sem hefur um árabil sérhæft sig í að selja og kynna austfirska hönnunarvöru og listvarning.
Samkvæmt samningnum mun í Húsi Handanna verða rekin upplýsingamiðstöð sem veitir ferðamönnum hlutlausar upplýsingar um þjónustu og staðhætti á Austurlandi og landinu í heild. Horft er til þess að samlegð í rekstri geti stutt við báðar rekstrareiningar.
Upplýsingamiðstöðin verður til húsa á fjölförnustu gatnamótum Austurlands í sama rými og verslun Húss Handanna, að Miðvangi 1-3 Egilsstöðum. Þar verður áhugaverður áningarstaður þar sem kynnt verður allt það besta sem Austurland hefur upp á að bjóða í þjónustu, náttúruupplifun og vörum úr héraði, einskonar „Anddyri Austurlands" þar sem ferðamaðurinn fær allar upplýsingar um fjórðunginn á einum stað.
Upplýsingamiðstöð Austurlands verður opnuð formlega í byrjun maí en upplýsingagjöf er hafin á opnunartíma Húss Handanna sem er 12- 18 til 15. maí. Sumaropnunartími verður frá 8.30 – 18.00 alla virka daga og 11-16 um helgar.