Fellaskóli keppir til úrslita í Skólahreysti í kvöld
Fellaskóli í Fellabæ er meðal tólf skóla sem keppa til úrslita í Skólahreysti sem fara fram í Laugardalshöll í kvöld.Fellaskóli sigraði undankeppni austurlandsriðilsins fyrr í þessum mánuði, en fyrir skólann keppa þau Guðjón Ernir Hrafnkelsson, Mikael Arnarson, Þórey Hjördís Einarsdóttir og Salka Sif Þorvaldsdóttir Hjarðar.
Auk Fellaskóla keppa til úrslita Breiðholtsskóli og Réttarholtsskóli frá Reykjavík, Brekkubæjarskóli á Akranesi, Dalvíkurskóli, Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn í Hveragerði, Heiðarskóli og Holtaskóli úr Reykjanesbæ, Lindaskóli úr Kópavogi, Síðuskóli á Akureyri og Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi.
Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna vegleg peningaverðlaun. Keppendur sigurliðsins fá einnig vegleg verðlaun.
Búast má við mikilli spennu í Laugardalshöllinni, en RÚV sýnir beint frá keppninni og hefst útsendingin klukkan 20:00.
Ljósmynd: Skólahreysti