Leitar leiða til þess að efla ungt tónlistarfólk: Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands
![hljomsveitanamskeið austurlands web](/images/stories/news/folk/hljomsveitanamskeið_austurlands_web.jpg)
Sjö hljómsveitir hafa tekið þátt á námskeiðinu í ár, samtals 25 þáttakendur frá Djúpavogi, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Egilsstöðum og Neskaupstað.
Jón Hilmar Kárason er maðurinn á bak við námskeiðin, en er þetta þriðja árið sem þau eru haldin. Þorlákur Ægir Ágústsson og Helgi Georgsson hafa einnig komið að þeim.
„Ég hef alltaf verið að leita leiða til að auka möguleika ungra tónlistarmanna til að koma fram og fá þá til að stofna hljómsveitir, auka hljómsveitarmenninguna okkar. Í leiðinni kynnast ungir tónlistarmenn á Austurlandi, þáttakendur koma frá sex byggðarkjörnum," segir Jón Hilmar.
„Hljómsveitiranar munu leika fjölbreytta tónlist sem við höfum verið að fást við á námskeiðinu. Það er mikill metnaður í krökkunum og þeim er beint í ýmsar áttir á námskeiðinu, en í ár verða þau með lög á borð við Stairway to heaven.
Námskeiðið hefur þróast á milli ára. Í fyrra fóru krakkarnir í hljóðver og við munum gera það aftur núna. Í ár höfðum við einnig trommu og gítarnámskeið sem allir gátu sótt en Kristinn Snær Agnarsson kom og leiðbeindi, ásamt mér og Guðmundi Höskuldsyni gítarsmið.
Brynhildur Oddsdóttir verður gestur okkar að þessu sinni. Hún er frábær tónlistarkona, hörku gítaristi og söngvari, sem fer örlítið aðrar leiðir en aðrar tónlistarkonur. Hún mun flytja tónlist sína sem hún hefur verið að ferðast með víðsvegar um heiminn ein og með hljómsveit sinni Beebee and the bluebirds," segir Jón Hilmar.
Menningarráð Austurlands og Fjarðabyggð eru helstu styrktaraðilar námskeiðisins. Aðgangseyrir er kr 1500.