„Finndu þitt bros" á Fljótsdalshéraði
Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs stendur fyrir skemmtiviðburði fyrir íbúa, sem kallast „Finndu bros þitt" dagana 7. og 8. maí. Viðburðurinn tengist evrópskri ungmennaviku og er styrktur af evrópu unga fólksins ásamt Fljótsdalshéraði.Í kvöld verður skemmtun í Sláturhúsinu þar sem allir eru velkomnir og frítt inn. Á dagskránni verða tónlistaratriði frá ungu fólki úr félagsmiðstöðvunum, leikatriði og morfíseinvígi frá nemendum ME. Gjörningar verða framdir tengdir þema viðburðarins ásamt léttum veitingum. Síðast en ekki síst verður Prins Póló með tónleika.
Klukkan 22:00 verða tónleikar með Agent Fresco á Kaffi Egilsstöðum, en Nemendafélag ME stendur að þeim viðburði.
Á morgun heldur fjörið áfram fyrir unga fólkið, en allir nemendur 8. – 10. bekkja á Fljótsdalshéraði sameinast í Egilsstaðaskóla í hádeginu þar sem þeir fá fræðslu um Dale Carnegie, fara í skemmtilega og eflandi leiki.
Annað kvöld verður ball á Brúarási fyrir nemendur í 8. - 10. bekk, þar sem DJ- Sölvi þeytir skífum.
Lokaball ME verður sama kvöld á Kaffi Egilsstöðum.
Hugmyndin kom frá unga fólkinu
Adda Steina Haraldsdóttir hefur stýrt verkefninu ásamt Árna Heiðari Pálssyni. „Hugmyndin kemur frá krökkunum sjálfum, en hún var að gera einhverskonar forvarnardag tengdan andlegri líðan og náungakærleik." segir Adda Steina.
„Unga fólkið stendur fyrir viðburðunum og hafa þau staðið sig mjög vel og verið að gera ótrúlega góða hluti. Þau eru ánægð með þetta og finnst hugmyndin kærkomin tilbreyting frá hefðbundinni vímuefnafræðslu, en mikil þörf er á svona fræðslu hjá okkur í dag," segir Edda Steina.