Göngum saman á Austurlandi á sunnudaginn
![brjostabolla web](/images/stories/news/2015/fotbolti_einherji_sindri_bikar/brjostabolla_web.jpg)
Styrktarfélagið Göngum saman hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Félagið leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóðinn.
Félagsmenn í Landssambandi bakarameistara, efna til sölu á brjóstabollum í bakaríum víða um land um helgina, meðal annars á Egilsstöðum og í Neskaupstað.
Þetta er í fimmta sinn sem Landssamband bakarameistara styrkir verkefnið með þessum hætti og hafa hingað til alls safnast hátt í fimm milljónir króna sem hafa runnið óskiptar til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Staðsetningar göngunnar
Í Neskaupstað verður gengið frá vitanum klukkan 11:00, en gengið verður um bæinn eftir veðri og aðstæðum og endað við sundlaugina þar sem boðið verður upp á létta hressingu. Fjarðabyggð býður göngugörpum í sund og þar verður kynning á „samfloti" – slökun í vatni.
Nesbær kaffihús selur „brjóstabollur" föstudaginn 8.maí og laugardaginn 9.maí til styrktar Göngum saman og aarningur til styrktar málefninu verður til sölu í Nesbæ á föstudag milli klukkan 15:00 og 18:00 og á laugardag milli klukkan 11:00 og 14:00.
Á Fáskrúðsfirði verður gengið frá sundlauginni klukkan 11:00, en tvær vegalengdir eru í boði, 3 km og 5 km. Frítt í sund fyrir göngufólk að göngu lokinni. Skemmtilegur varningur til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini verður til sölu á staðnum fyrir og eftir göngu.
Á Egilsstöðum verður gengið frá sundlauginni klukkan 11:00. Frítt í sund fyrir göngufólk að göngu lokinni.
Varningur til styrktar Göngum saman seldur í Nettó á föstudag milli klukkan 16:00 og 19:00 og á laugardag milli klukkan 12:00 og 15:00.
Hótel Hérað verður með brunch á sunnudaginn til styrktar verkefninu og brjóstabollur verða til sölu á Salt alla helgina.
Á Vopnafirði verður gengið af stað frá Kaupvangi klukkan 11:00. Skemmtilegur varningur til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini verður til sölu á staðnum fyrir og eftir göngu.