Sigmundur Davíð heldur hátíðarræðuna; Menningarhátíðin Einarsvaka í Heydalakirkju á uppstigningardag

sigmundur david feb13Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur hátíðarræðu á Einarsvöku sem haldin verður í Heydalakirkju á uppstigningadag, fimmtudaginn 14. maí.

Menningarhátíðin Einarsvaka er nú haldin í sjötta sinn, í minningu sr. Einars Sigurðssonar Heydölum, en hann var helsta trúarskáld sinnar tíðar. Einar var prestur í Heydölum árin 1590-1627.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur hátíðarræðu, sr Anna Margrét Birgisdóttir flytur ávarp um Einar og áhrif hans á íslenska menningu. Lesið verður úr kvæðum eftir sr. Einar og áhersla verður á fallega tónlist undir stjórn Daníels Arasonar með kirkjukórnum og Blásarasveit Tónlistarskólans á Egilsstöðum.

Enginn Austfirðingur rýs hærra en Einar

„Einar var magnaður maður og afar kynsæll, en talið að allir Íslendingar geti rakið ættir sínar til hans," segir Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur á Heydölum.

„Talið er að meira sé til af sálmum eftir hann en nokkurn annan Íslending og þeirra þekktastur er „Nóttin var sú ágæt ein". Hann var á meðal þeirra sem lögðu mikið að mörkum svo siðbreyting Lúthers, sem líkja má við menningarbyltingu á Íslandi, festi djúpar rætur í þjóðlífinu og mótað hefur gildismat og sið allt fram á þennan dag."

Gunnlaugur segir Einar hafa verið vanmetinn, en það sé þó að breytast. „Ég held ég megi fullyrða að enginn Austfirðingur rýs hærra en hann og við erum að gera hvað sem við getum til þess að halda minningu hans á lofti," segir Gunnlaugur.


Hvað vill forsætisráðherra boða um kristna trú og menningu?

Gunnlaugur segist ekki vita til þess að Sigmundur Davíð hafi áður flutt sambærilegt ávarp í krikju „Við höfum alltaf verið með fræðimenn sem hafa fjallað um Einar og það sem hann hefur gefið til íslensks menningarlífis. Að þessu sinni þótti okkur tilvalið að fá Sigmund Davíð og sjá hvað hann vill boða um kristna trú og íslenska menningu.

Athöfin hefst klukkan 14:00 og allir eru hjartanlega velkomnir.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar