Nýtt bókaforlag á Austurlandi

sigga lara jan15 0013 webBókstafur er nýtt bókaforlag á Egilsstöðum. Fyrsta bók forlagsins er metsölubókin Rachel fer í frí eftir Marian Keyes, einn söluhæsta höfund Íra.

Rachel fer í frí (e. Rachel's Holiday) er önnur skáldsaga írska metsöluhöfundarins Marian Keyes en þýðingu annaðist Sigurlaug Gunnarsdóttir. Í henni tekst höfundur á við sögu um fíkn, afneitun og bata með þeirri hnyttni sem hefur aflaði henni heimsfrægðar. Bókin kom fyrst út á Írlandi og í Bretlandi í janúar 1998, en hefur síðan verið þýdd á 15 tungumál. Hún er enn í dag söluhæsta bók höfundar.

Marian Keyes er einn söluhæsti höfundur Írlands. Hún hefur sent frá sér 13 skáldsögur, nokkur söfn dagblaðapistla og eina matreiðslubók. Bókstafur hefur tryggt sér útgáfuréttinn á fleiri bókum eftir Marian Keyes og ráðgerir útgáfu á komandi misserum enda frábær höfundur hér á ferð.

Hið nýstofnaða forlag mun annars leggja áherslu á útgáfu þýddra og íslenskra verka sem unnar eru á Austurlandi. Nokkur verk eru þegar í vinnslu, m.a. leiðsögubók um austfirsk fjöll, ferðasaga hjóna sem fóru á mótorhjólum um Mið-Asíu á liðnu ári og sögur fyrir börn úr þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar auk þýddra og íslenskra skáldsagna.

Stofnandi og framkvæmdastjóri Bókstafs er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Hún hefur lokið M.A. námi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu en hefur undanfarið unnið að doktorsverkefni í leikhúsfræðum. Sigríður Lára þýddi bækurnar um Önnu í Grænuhlíð sem Ástríkur útgáfa gefur út og í fyrra kom út hálfsjálfsævisöguleg skáldsaga hennar, Of mörg orð, þroskasaga tiltölulega ungrar konu í góðæri, hjá Snotru.

Bókstafur hefur fengið aðstöðu hjá nýstofnuðu frumkvöðlasetri, Hugvangi, sem starfrækt er í Kaupvangi 6 á Egilsstöðum. Þar eru fyrir Austurfrétt, Augasteinar – Auglýsingastofa Austurlands og ýmis fyrirtæki í hugbúnaðarþróun og vefhönnun.

Samhliða stofnun Bókstafs voru einnig stofnuð félagasamtökin Ritsmiðja Austurlands en að henni stendur hópur áhugafólks um bækur og bókaútgáfu. Markmið samtakanna er fyrst og fremst að efla tengslanet þeirra sem starfa að og/eða hafa fagþekkingu í útgáfutengdum greinum og eru búsettir á Austurlandi. Ritsmiðja Austurlands hefur einnig á stefnuskrá sinni að standa að námskeiðahaldi í skapandi skrifum á Austurlandi og kanna aðstöðu fyrir fólk til að stunda ritstörf á svæðinu.

Í tilefni útgáfunnar efnir Bókstafur til útgáfufagnaðar í Bókakaffi í Fellabæ annað kvöld klukkan 20:00. Í hófinu verður einnig sagt frá nokkrum fyrirliggjandi verkefnum, en ýmislegt er í pípunum hjá Bókstaf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar