„Aldrei að vita nema maður taki þátt í Eurovision“

eurovisioncoverEskfirðingurinn Eiríkur Þór Hafdal og félagi hans Héraðsbúinn Flosi Jón Ófeigsson, sigruðu í tökulagakeppni aðdáendaklúbba Eurovision sem fram fór í Vín síðastliðinn föstudag.

Eiríkur Þór starfar hjá framleiðslufyrirtækinu Silent og var í Austurríki til þess að búa til myndband af íslenska hópnum fyrir Vodafone og Vísi.

„Við Flosi fengum áskorun um að taka þátt í þessari keppni, International Cover Contest á Euro fan Café, föstudaginn fyrir Eurovision. Við þurftum að vera snöggir að ákveða okkur, því aðeins voru nokkur laus pláss í keppnina. Við stukkum því bara á þetta án þess að vera komnir með lag eða neitt," sagði Eiríkur Þór í samtali við Austurfrétt.

Félagarnir tóku lagið, This is my life, sem sungið er af Friðriki Ómari og Regínu Ósk.

„Það lag hentaði okkar raddsviði ágætlega og við skiptum línunum á milli okkar. Við gerðum þetta bara til gamans, þegar út var komið hafði þetta hvisast út meðal íslenska hópsins. Það voru því um 50 Íslendingar í salnum til að hvetja okkur, sem var alveg frábært," segir Eiríkur Þór.

Alls voru 13 lönd með í keppninni og stigu þeir Eiríkur Þór og Flosi Jón síðastir á svið.

„Það var frekar gott, en við vorum líklega minnistæðari fyrir vikið þegar kom að kosningunni, en áhorfendur völdu siguratriðið. Hera Björk kynnti sigurvegarana, sem var ekki leiðinlegt og hún ásamt Maríu, fulltrúa Íslands, tróðu upp eftir keppnina."

Nýtt lag fyrir herferð Prins Póló 

Eiríkur Þór hefur sungið frá því hann var unglingur og verið trúbador undanfarin sex ár. Hann er afar hógvær þegar talið berst að því. „Ég hef nú ekki verið að gera neitt að viti hingað til – gefið frá mér eitt og eitt lag síðustu ár, ýmist einn eða með örðum. Ég er með nýútkomið lag sem notað er í herferð fyrir Prins Póló, en þar syng ég gamla lagið sem Sumargleðin gerði frægt fyrir margt löngu."

Aðspurður hvort Eiríkur Þór ætli ekki bara að taka þátt fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni að ári, segir hann; „Það er spurning, aldrei að vita nema maður taki þátt í Eurovision, prófi það einhverntíman. Fyrsta skrefið væri að senda inn rétt lag og sjá hvað gerðist næst."



 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar