Hjalti Jón gefur út plötu: „Kraftur fólginn í því að vera svolítið berskjaldaður“
![hjalti](/images/stuff/hjalti.jpg)
Gerð plötunnar tók tvö ár, en þó með miklum hléum. „Ég ætlaði að vera mjög snöggur og gera þetta hratt og örugglega, en síðan tók platan bara þann tíma sem hún vildi taka. Svo var ég að mastera plötuna með Curver [Thoroddsen] og það var smá púsluspil með tímann hjá okkur báðum,“ sagði Hjalti Jón þegar Austurfrétt tók hann tali fyrr í dag.
„Ég gerði plötuna á mjög einfaldan og þægilegan hátt heima hjá mér og það var góð áskorun að spila sjálfur á öll hljóðfærin, teygja út þægindahringinn, semja allt sjálfur og spila allt sjálfur,“ sagði Hjalti.
Eins og áður segir eru textarnir á plötunni innblásnir af trúarlegum og tilvistarlegum pælingum. „Ég hef verið að læra guðfræði og þetta eru svona pælingar út frá því hver maður er, fyrir hvað maður vill standa og hvernig maður vill gera hlutina,“ segir Hjalti.
Hjalti segir gerð plötunnar hafa verið áskorun og að það sé hollt að gera eitthvað sem manni þyki svolítið óþægilegt. „Ég trúi á það í lífinu að það sé kraftur fólginn í því að gangast við því hver maður er og vera svolítið berskjaldaður. Mér finnst kúl þegar maður sér fólk sem þorir að segja sína sögu og þarna á plötunni er svolítið mín saga síðustu árin.“
Platan kom út á rafrænu formi og Hjalti er að íhuga að gefa hana mögulega út á fastara formi. „Mig langar svolítið að gefa hana út á vínyl og hef verið að velta því fyrir mér. En þessi plata er samt aðallega gerð fyrir mig og þó það sé gaman að fólk hlusti þá var það svona „mómentið“ að sitja og vinna þetta sjálfur. Það væri bara bónus að gefa þetta út á vínyl.“
Hjalti Jón er búsettur í Reykjavík, en ætlar þó að sækja Austurland heim í sumar. „Ég kem austur í júní og ætla að sjá um sumarbúðir í þrjár vikur, það verður bjútifúl. Svo kem ég aftur í ágúst og fæ að gefa vini mína Pétur og Brogan saman á Stöðvarfirði,“ segir Hjalti, sem er með mörg járn í eldinum.
Hjalti Jón er einnig í hljómsveitinni Miri ásamt þeim Ívari Pétri Kjartanssyni, Óttari Brans Eyþórssyni og Skúla Magnússyni. Þeir félagar eru að spila á sínum fyrstu tónleikum í þrjú ár í kvöld, þar sem mikið af nýju efni verður frumflutt. Tónleikarnir fara fram á skemmtistaðnum Húrra í miðborg Reykjavíkur og hefjast klukkan 21.
Mynd: Plötualbúmið - Mynd af Hjalta á yngri árum, tekin af Sverri Gestssyni, föður hans.