Sólblómahátíð á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði - Myndir

IMG 1302Á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði var mikið líf og fjör í gær en þá var haldin Sólblómahátíð. Brekkubær er svokallaður SOS Sólblómaleikskóli og styrkir leikskólinn litla stúlku sem býr í SOS barnaþorpi í Namibíu. Nemendur á Brekkubæ fengu tækifæri til að tala við hana og fjölskyldu hennar í gegnum Skype og sungu nokkur lög fyrir þau.

Í SOS barnaþorpunum fá munaðarlaus og yfirgefin börn staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. Börnin eignast heimili og fá að búa þar, þangað til þau eru orðin fullorðin og tilbúin að takast á við lífið. Unga stúlkan sem Brekkubær styrkir með árlegu framlagi heitir Beverly og er tveggja ára gömul.

Sólblómahátíðin var haldin til að fagna árangrinum í starfinu, sem hefur verið afar lærdómsríkt fyrir nemendur leikskólans. Steinunn Birna Aðalsteinsdóttir stýrir verkefninu og segir það bjóða upp á tækifæri til þess að kenna börnunum á leikskólanum gríðarlega margt.

„Þau taka höndum saman um ákveðið verkefni, læra samvinnu og það að vinna að ákveðnu markmiði. Við erum með bauka inni á deild þar sem við erum að safna pening fyrir stúlkuna og elstu börnin hafa verið að læra að telja peninga og búa til súlurit til að sýna hvað hver deild búin að safna miklum pening,“ sagði Steinunn um það hvernig verkefnið er nýtt í daglegum störfum á leikskólanum.

Steinunn sagði verkefnið gefa ótal tækifæri til að kynna börnin fyrir því sem er ólíkt á milli Íslands og Namibíu. „Við ræðum í samverustundum um heimili og hvað heimili eru ólík. Bæði hvernig húsin líta út og líka ólíkar fjölskyldugerðir, en til dæmis eru um það bil tíu systkini á hverju heimili í SOS barnaþorpum, sem er allt annar veruleiki en við búum við hér á Íslandi.“

„Við höfum verið mjög heppin með samvinnu foreldra og annað og í febrúar héldum við vöfflukaffi sem við auglýstum í fyrirtækjum. Mætingin var afar góð og fullt af fólki kom og keypti sér vöfflur og kaffi til styrktar Beverly,“ sagði Steinunn, ánægð með góðvildina sem verkefnið hefur notið í samfélaginu á Vopnafirði.
IMG 1298IMG 1303IMG 1309IMG 1318IMG 1334IMG 1341
IMG 1284

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.