Sjómannadagsblað Austurlands 2015
Tuttugasti og fyrsti árgangur Sjómannadagsblaðs Austurlands er kominn út en líkt og undanfarin ár er blaðið um 90 blaðsíður að stærð. Um tvö hundruð gamlar og nýjar ljósmyndir prýða blaðið og eru efnistökin vítt og breitt af Austurlandi.Á meðal efnis í blaðinu má nefna ítarlega frásögn Andrésar Skúlasonar frá því er Mánatindur SU strandaði á síldarvertíðinni 1983, og kraftaverkabjörgun báts og áhafnar, Smári Geirsson skrifar um Norðfirðinga á enskum togurum og Eskfirðingurinn Magnús Guðnason segir í fyrsta sinn opinberlega frá því er hann horfði á félaga sinn fara fyrir borð á skuttogaranum Hólmanesi fyrir réttum 30 árum.
Sjómannabörn frá Stöðvarfirði og Eskifirði segja frá því hvernig var að alast upp með föður á sjó, sagt frá þremur ströndum á Seyðisfirði, óvæntum afla sem komið hefur um borð í Sigurð Ólafsson SF frá Hornafirði og Magni Kristjánsson og fleiri segja frá kynnum sínum af aflaskipstjóranum Sigurjóni Valdimarssyni, frá Norðfirði, en hann lést skömmu fyrir sjómannadag í fyrra. Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Eskifirði, segir skemmtisögur af samferðamönnum sínum til sjós, Sigurbjörg Bóasdóttir, frá Reyðarfirði, rifjar upp sjö ára sjómannsferil sinn á frystitogaranum Snæfugli, Venus NS, nýtt og stórglæsilegt uppsjávarveiðiskip með heimahöfn á Vopnafirði er kynnt til sögunnar og lauslega fjallað um verbúðarlíf á Hornafirði um miðja síðustu öld.
Þeir sem ekki búa á Austurlandi geta nálgast blaðið í Grandakaffi í Reykjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is.
Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er sem fyrr Kristján J. Kristjánsson, frá Sjónarhóli á Norðfirði.