Kvenréttindadeginum fagnað á Austurlandi
![kvennafridagur 2005 010 web](/images/stories/news/2015/kvennafridagur_2005_010_web.jpg)
Kvennréttindadegi fagnað á Héraði
Mikið verður um dýrðir á Fljótsdalshéraði í dag í tilefni kvenréttindadagsins.
Soroptimistaklúbbur Austurlands stendur fyrir „prjónagöngu" til að heiðra minningu formæðranna sem aldrei féll verk úr hendi og gengu prjónandi á milli bæja til að nýta tímann.
Í Safnahúsinu verður Minjasafnið opið frá klukkan 11.30 til 19.00 og er frítt inn allan daginn.
Kvenfélagskonur á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra hittast að vanda á þessum degi og í ár fer samkoman fram í Hlynsölum.
Nánar má lesa um dagskrána hér.
Kvennafagnaður í Alcoa í dag
Í tilefni af kvenréttindadeginum býður Alcoa Fjarðaál austfirskum konum til fagnaðar í matsal álversins.
Leikkonan Björk Jakobsdóttir sér um veislustjórn, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins flytur ávarp og söngkonan Hrafna Hanna Herbertsdóttir flytur nokkur vel valin lög.
Gleðskapurinn hefst kl. 17:00 og stendur til kl. 18:30.
Gönguvikan á fætur í Fjarðabyggð hefst um helgina
Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð hefst á laugardaginn með göngu- og bátsferð á Barðsneshorn og Sandfell, sólstöðugöngu á Grænafell í Oddsdal og kvöldvöku í Randulffs-sjóhúsi á Eskifirði.
Allar nánari tímasetningar og dagskrá gönguvikunnar í heild sinni má sjá hér.
KK Bandið í Fjarðaborg
KK Bandið verður með tónleika í Fjarðaborg á Borgarfirði eystri á laugardagskvöldið klukkan 20:00.
Skógardagurinn mikli
Skógardagurinn mikli er í Hallormsstaðaskógi á laugardag. Sem fyrr verður íslandsmót í skógarhöggi, skógarhlaupið, grillveisla, skemmtidagskrá og ketilkaffi.
Fyrri hluta dags fer Skógarhlaupið fram; 14 km og 4 km leiðir á mjúkum stígum í frábæru umhverfi skógarins. Ræst er í Skógarhlaupið (14 km) kl. 12:00 og skemmtiskokkið (4 km) kl. 12:30. Dagskrá hefst kl. 13:00.
Sem hluti af Skógardeginum mikla bjóða sauðfjárbændur á Héraði og fjörðum, gestum í grillað lamb og fleira skemmtilegt í trjásafninu á Hallormsstað í dag, föstudag. Dagskráin byrjar kl. 19:00.
Nánar má lesa um dagskrána hér.
Handverksvikur í Breiðdal
Tveggja vikna handverkssýning hefst í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík á sunnudaginn. Að þessu sinni verða til sýnis munir sem eru útskornir, útsagaðir eða mótaðir með öðrum hætti.
Tónlistarstund í Vallarneskirkju
Hjalti Jónsson, tenór og Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla verða með tónleika í Vallarneskirkju á sunnudaginn klukkan 20:00.
Tónleikarnir eru hluti af „Tónlistarstundum" – sex tónleika röð sem hefur verið árviss viðburður í tónlistarlífi Austurlands frá árinu 2002.
Nánar má lesa um dagskrána hér.