Fóru í prjónagöngu til að fagna 100 ára kosningarétti: Vildum gera eitthvað sérstakt eystra

prjonaganga 0015 webHátt í sextíu konur tóku þátt í prjónagöngu Soroptimistaklúbbs Austurlands. Gengið var úr fjórum áttum að Egilsstaðakirkju til að halda upp á 100 ára kosningarétt kvenna á Íslandi.

„Það var verið að hvetja konur til að gera eitthvað í tilefni 19. júní og það var eitthvað sem bankaði á að við gerðum eitthvað sérstakt hér á Austurlandi," segir Ágústína Konráðsdóttir, systir í klúbbnum sem átti hugmyndina.

„Við prjónum á fundum og í eitt skiptið þegar ég var að koma af fundi á Borgarfirði datt mér í hug hvernig væri að ganga prjónandi og minnast þannig kosningaréttarins."

Systurnar í klúbbnum koma frá Seyðisfirði, Borgarfirði og Héraði. Því þótti viðeigandi að ganga frá Lagarfljótsbrú, Eyvindarárbrú, Fagradalsvegi enda standa Egilsstaðir á krossgötum.

Klúbbsystur komu líka saman eina kvöldstund og hönnuðu léttar prjónaskjóður sem þær báru í göngunni.

Ágústína, sem er fædd á Haukagili í Vatnsdal líkt og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, segir að göngunni hafi klúbbsystur viljað minnast formæðranna sem gengu stundum prjónandi á milli bæja. „Konur gerðu þetta hér áður til að nýta allan tíma og þetta gekk ljómandi vel í dag."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar