Keðjusagablús á Skógardeginum: Skrifað eins og fyrir Sinfóníuhljómsveitina – Myndband

skogardagurinn mikli 2015 0053 webTónverkið Keðjusagablús fyrir fjórar keðjusagir og olíutunnur var flutt öðru sinni á Skógardeginum mikla á Hallormsstað um helgina. Tónskáldið segir hollt að nota sagirnar í fleira en að höggva tré.

„Það er aðeins erfiðra að semja fyrir keðjusög en venjulega sög því tónsviðið er meira í venjulegu söginni. Keðjusögina þarf meira að hugsa eins og slagverkshljóðfæri og því eru nóturnar skrifaðar eins og fyrir slagverksdeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Við erum með alvöru nótur og þetta er æft mjög vel þannig það er ekkert svindl á sviðinu. Við notum spýtur í stað saga á fyrstu æfingnum því hljóðfæraleikararnir heyra lítið hver í öðrum fyrir sögunum."

Þetta segir dr. Charles Ross, tónskáld sem stjórnaði flutningi verksins. Verkið samdi hann sumarið 2002 þegar hann var starfsmaður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað.

„Skúli (Björnsson) kom til mín og spurði hvort það væri möguleiki að skrifa verk fyrir keðjusög og ég sagði auðvitað já.

Það tók mig hálftíma í hádegishléinu að skrifa verkið og fyrsta æfing var í kaffihléinu sama dag," segir Charles sem telur það lítið verk að semja fyrir fleiri tæki.

„Það er alveg eins hægt að semja fyrir fjórar flugvélar, þá væri hægt að hafa Boeing 747, 737 Douglas og litla rellu."

Hljóð saganna getur þannig verið mismunandi eftir framleiðendum, hvernig þær eru stilltar eða þeim gefið inn. Charles segir það hollt að leika á keðjusögina.

„Já, það er gott að fara út og gera leikfimiæfingar með hana. Mér finnst ég kraftmikill á eftir. Það á ekki bara að nota þær til að höggva tré."



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar