Tónleikasumarið byrjar vel á Borgarfirði

soley svid webStaðarhaldarar í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra segja sumarið fara vel af stað. Líkt og í fyrra er boðið upp á tónleika með landskunnum tónlistarmönnum um hverja helgi fram að Bræðslu.

„Þetta gekk snilldarvel í fyrra og því kom aldrei annað til greina en gera þetta aftur," segir Óttar Már Kárason, veitingamaður í Fjarðarborg.

Tekið var forskot á sæluna með 60 ára afmælistónleikum Jóns Arngrímssonar sem á þriðja hundrað gestir sóttu. Um helgi byrjaði dagskráin formlega þegar KK bandið steig á svið og í gærkvöldi var það Sóley sem þekktust er fyrir lagið „Pretty face" sem spilað hefur verið 19 milljón sinnum á YouTube.

Hún hefur hins vegar ekki komið áður fram á Austurlandi og eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem hún kemur yfirhöfuð fram alein á sviði á tónleikum.

„Við töluðum við hana í kringum tónlistarbúðirnar í vor. Hún komst ekki þá en fyrst sambandið var komið á og hún til í að gera eitthvað þá ákváðum við að reyna aftur.

Við erum mjög ánægðir með að geta boðið upp á tónleika með jafn þekktum og góðum tónlistarmanni á Borgarfirði. Þetta var drulluflott hjá henni í gærkvöldi."

Heimamenn mynda kjarna þeirra sem sækja tónleikana en gestirnir koma víðar að. „Við erum búnir að selja yfir 20 passa á alla tónleikana í sumar. Það er slatti af fólki á Borgarfirði, sumarhúsaeigendur eru mættir á svæðið, aðrir rúnta af Héraðinu og nálægum stöðum og svo flækjast stöku túristar inn."

Óttar segir ferðamannasumarið fara vel af stað á Borgarfirði. „Tilfinning mín er að það séu fleiri á ferðinni en í fyrra. Mér finnst hafa verið mjög góð umferð síðan við opnuðum."

Áfram verður haldið um næstu helgi þegar Teitur Magnússon úr Ojba rasta mætir á svæðið og á eftir honum koma Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir.

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar