Hofsball og hagyrðingakvöld á Vopnaskaki næstu helgi
![vopnafjordur 02052014 0004 web](/images/stories/news/umhverfi/vopnafjordur_02052014_0004_web.jpg)
„Við erum að reyna að endurvekja hluti sem hafa áður verið í gangi og nutu vinsælda,“ sagði Tómas Guðjónsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar í samtali við Austurfrétt og vísar þar til hagyrðingakvölds og sveitaballs á Hofi.
Hagyrðingakvöld á Vopnafirði nutu eitt sinn mikilla vinsælda. Mörg ár eru frá því hagyrðingakvöld var haldið síðast á Vopnafirði en nú á að endurvekja viðburðinn. Davíð Þór Jónsson verður stjórnandi og hagyrðingar verða Hjálmar Jónsson, Friðrik Steingrímsson, Andrés Björnsson, Björn Ingólfsson og Hrönn Jónsdóttir. Þá munu tónlistarmennirnir Magnús og Jóhann einnig stíga á svið.
Margar kynslóðir Vopnfirðinga og annarra eiga minningar af Hofsböllum en langur tími er liðinn frá því það síðasta var haldið. „Það bara einhvernveginn hefur ekki virkað að vera með böll í íþróttahúsinu, það myndast engin stemning þar og eldra fólk mætir yfirleitt ekki þangað,“ sagði Tómas og bindur vonir við að mætingin á Hofsball verði góð hjá fólki á öllum aldri.
Að öðru leyti er dagskrá hátíðarinnar mjög fjölbreytt en meðal dagskrárliða má nefna tónleika með Mannakornum, Einar Mikael töframann, listasýningar, kjötsúpukvöld, Bustarfellsdag, miðnætursund, golfmót og markaðstorg. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á Vopnafirði næstu helgi og að sögn Tómasar standa vonir til þess að fjöldi brottfluttra Vopnfirðinga og annarra gesta sæki bæinn heim og skemmti sér vel.
Mynd: Frá Vopnafirði