Norsk-íslenskur gítarkvartett á ferð um Austurland: Tónleikar í Egilsstaðakirkju í kvöld

Björgvin Gítarkvartett 1Björgvin Gítarkvartett frá Bergen í Noregi, sem skipaður er Fellbæingnum Öystein Magnús Gjerde og þremur ungum norskum gítarleikurum, hefur verið á ferð og flugi um landið síðustu daga. Nú eru þeir komnir austur á land og spila á sumartónleikum Egilsstaðakirkju í kvöld kl. 20, í Djúpavogskirkju á laugardag kl. 17 og á Pólar Festival á Stöðvarfirði þriðjudaginn 7. júlí kl. 20.

Þessir ungu menn hafa spilað saman í kvartett síðan haustið 2013 og komið fram á tónlistarhátiðum eins og Festspillene í Bergen. Þeir hafa haldið nokkra tónleika á minni stöðum í Vestur Noregi, auk þess sem þeir fóru í tónleikaferðalag um svæðið veturinn 2014. Tónlistin sem þeir spila spannar frá endurreisn til nútímatónlistar og er ýmist umskrifuð frá öðrum hljóðfærum eða samin fyrir gítarkvartett.

Öystein Magnús Gjerde er 23 ára og eini Íslendingurinn í kvartettinum. Hann kemur frá Fellabæ á Fljótsdalshéraði og lærði fyrst á klassískan gítar heima á Íslandi hjá föður sínum Torvald Gjerde, Matti Saarinen og Steingrími Birgissyni. Árið 2010 flutti hann til Noregs og lærði tónlist í Toneheim Folkehøgskole, lýðháskóla við Hamar. Ári seinna byrjaði hann á bachelornámi í Grieg-akademíunni í Bergen, sem hann lauk núna í ár, fyrsta árið hjá Njål Vindenes og síðustu þrjú árin hjá Stein-Erik Olsen. Hann flytur nú aftur heim til Íslands og tekur til starfa sem tónlistarkennari á Fljótsdalshéraði.

Norðmennirnir sem mynda kvartettinn með honum heita Thomas Schoofs Melheim, Morten Andre Larsen og Dag Håheim. Allir hafa þeir stundað gítarnám við Grieg-akademíuna í Bergen líkt og Öystein.

Tónleikarnir í Egilsstaðakirkju hefjast sem áður segir kl. 20:00 í kvöld.

Mynd: Björgvin Gítarkvartett. Fellbæingurinn Öystein Magnús Gjerde er lengst til vinstri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar