Vinir keyra hringinn á tveimur dráttarvélum: Hver einasti maður veifar okkur

traktorar barnaheill 0004 webVika er síðan vinirnir Karl Friðriksson og Grétar Gústavsson lögðu upp í hringferð um landið á tveimur Massey Ferguson dráttarvélum. Þeir komu við á Egilsstöðum í dag og buðu leikskólabörnum að skoða vélarnar auk þess sem þeir ræddu við þau um mikilvægi vináttunnar.

„Við sögðum við hvorn annan þegar við vorum átta ára gamlir að við skyldum fara á dráttarvélum í kringum landið. Þetta er því æskudraumur okkar og það er mikilvægt að láta drauma sína rætast," sagði Karl í samtali við Austurfrétt.

Karl og Grétar voru saman í sveit að Valdarási í Húnaþingi og Karl segir þá hafa alist upp með annarri vélinni við leik og störf, en hin er fengin frá Búvélasafninu á Hvanneyri.

Það lifnar yfir honum þegar talið berst að vélunum og hann útskýrir að þeir séu með „Massey Ferguson-hjarta. Okkur þykir óheyrilega vænt um þessar vélar."

Vélarnar tvær eru af gerðinni 35x framleiddar árið 1963. Þessi gerð var aðeins framleidd í tvö ár og fá eintök af henni komu til Íslands. „Það eru oftar en ekki rifjaðar upp sögur af okkur á þessum vélum þegar við komum saman."

Þriðja markmið ferðarinnar er að leggja baráttunni gegn einelti lið en þeir safna áheitum fyrir Vináttu – forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti í grunnskólum og koma við á nokkrum slíkum í ferðinni.

„Okkur er annt um að stuðla að vináttu sem vinnur gegn einelti því við teljum vináttu sem skapast milli krakka eins og hér vera gott veganesti þegar fram líða stundir. Það hefur aðeins komið okkur á óvart í ferðinni að fólk hefur komið til okkar og rætt þetta málefni en það er hið besta mál."

Þeir segja ferðina hafa gengið vel en slétt vika er síðan þeir lögðu af stað í Reykjavík. Þeir tóku lengri hringinn í gegnum þéttbýlisstaði á Norðurlandi og halda í dag áfram fjarðaleiðina til Djúpavogs. Áætlað er að þeir komi aftur til Reykjavíkur um miðja næstu viku.

„Ferðin hefur gengið vel og við fengið gott veður, einkum til að byrja með. Það er ekki bara annar hver maður sem veifar okkur heldur hver einasti.

Það er mun betra að ferðast í þessum vélum en mig minnti. Við erum báðir komnir til ára okkar og veltum fyrir okkur hvort við myndum þola að vera svona lengi á vélunum en þær eru miklu mýkri en við þorðum að vona."

Hægt er að hringja eða senda sms í síma 904 1900 (500 kr.) með textanum: Vinátta – einnig má leggja inn á bankareikning Barnaheilla 0334-26-4521, kt. 521089-1059.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar