Sýna úrval listaverka í eigu Seyðisfjarðarkaupstaðar
![skaftfell landslaghjartans](/images/stories/news/2015/skaftfell_landslaghjartans.jpg)
Á Landslagi hjartans gefur að líta úrval listaverka í eigu Seyðisfjarðarkaupstaðar undir sýningarstjórn Þórunnar Eymundardóttur. Elsta verkið á sýningunni er frá 1861 eftir H.A.G. Schiøtt sem var gefið kaupstaðinum í tilefni af 100 afmæli hans. Einnig eru til sýnis málverk eftir Eggert Guðmundsson, Emanuel A. Petersen, G. Wiseman, Garðar Eymundsson, Kristján Hall, Ólöfu Birnu Blöndal og Sigurð Baldvinsson.
Nýjasta verkið er Seyðisfjarðarskyggnur eftir Dieter Roth sem byggir á slidesmyndum sem Dieter tók af húsum bæjarins veturinn 1988 og sumarið 1995. Ennfremur er Frásagnasafnið til sýnis, sem var tveggja ára söfnunarverkefni sem Skaftfell stóð fyrir að frumkvæði svissneska listamannsins Cristoph Büchel og samanstendur af 214 frásögnum bæjarbúa tekin á tímabilinu 2011-2012.
Málverk Eggerts Guðmundssonar, titill þess er óþekktur, er eina verkið á sýningunni sem var pantað af bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstað. Tilefnið var bygging félagsheimilisins Herðubreið og vígsla þess fór fram í desember 1956. Eggert dvaldist eystra part úr sumri við gerð myndarinnar en sjónarhorn hennar er fjarðarbotninn og bærinn séð frá eyrinni neðan við Eiríksstaði. Á myndinni má sjá ýmiss skip, svo sem landhelgisgæsluskip sem voru hér mikið á þessum tíma sem og síldarbáta en þetta er í síldarævintýrinu miðju.
Málverkið er yfir þrír metrar að lengd og um einn og hálfur metri að hæð. Það var málað sérstaklega fyrir bíósalinn, elsta hluta félagsheimilisins, og hékk þar árum saman eins og margir Seyðfirðingar muna vel eftir. Á einhverjum tímapunkti var verkið flutt úr Herðubreið og hefur undanfarin ár hangið í fundarsal á efri hæð Íþróttahússins þar sem fáir hafa séð það.
Eftir að sýningunni í Skaftfell lýkur mun verkið vera aftur hengt á upprunalega staðsetningu í Herðubreið þar sem Seyðfirðingar og gestir þeirra geta notið þess. Skaftfell er opið frá kl. 12:00-21:00 um helgina.
Kanadíski tónlistarmaðurinn Mark Hamilton spilar undir nafninu Woodpigeon. Mark kemur reglulega til Íslands og heldur tónleika. Hann hefur m.a. spilað á Iceland Airwaves hátíðinni, í Mengi og á Dalvík.
Einnig er hann höfuðpaurinn í íslensk/kanadísku sveitinni Embassy Lights þar sem Svavar Pétur Eysteinsson og Benedikt Hermann Hermannsson spila einnig. Mark hefur verið á Evróputúr og ætlar að enda hann með stæl í hlöðunni á Karlsstöðum.
Teit Magnússon, söngvara og gítarleikara reggí sveitarinnar Ojba Rasta, þarf vart að kynna. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu, 27, á dögunum sem snert hefur mörg hjörtu. Lagið Munaðarhóf er í talsverðri spilun á Rás 2 og situr á vinsældarlistanum.
Teitur er á flakki um sveitir landsins með gítarinn og stoppar að sjálfsögðu við á Karlsstöðum. Partýið hefst klukkan 20:00 á sunnudagskvöld.
Þá opnar farandsýningin „Veggir úr sögu kvenna" í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 13:00 á morgun. Kvenréttindasamband Íslands stendur fyrir sýningunni í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Opið er alla daga í júlí kl. 13:00-17:00