Pólar: Vilja kynna Stöðvarfjörð fyrir fólki og fólk fyrir Stöðvarfirði

IMG 4102Á morgun hefst listahátíðin Pólar á Stöðvarfirði og stendur yfir fram á sunnudag. Pólarhátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2013 í samstarfi við þorpshátíðina Maður er manns gaman og er markmið hátíðarinnar að kynna Stöðvarfjörð fyrir fólki og fólk fyrir Stöðvarfirði.

Megináherslur hátíðarinnar eru sköpunarkraftur og matarmenning. Lögð er mikil áhersla á sjálfbærni og nærumhverfið. Í samstarfi við fjölbreyttan hóp af hæfileikaríku fólki verður boðið upp á litríka dagskrá, vinnustofur og sannkallaða hátíðarstemningu dagana 7.-12. júlí.

Að sögn aðstandenda hátíðarinnar verður boðið upp á eitthvað fyrir alla og öll fjölskyldan ætti því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á Stöðvarfirði næstu daga. Á meðal þess sem verður í boði eru námskeið, matargerð, morgun-jóga, tónleikar, bryggjuball og sýningar.

Pólar byggir á hugmyndinni um hæfileikasamfélagið. Peningar leika eins lítið hlutverk og mögulegt er, ekki síst fyrir tilstilli Uppbyggingarsjóðs Austurlands, sem styrkir hátíðina. Aðstandendur hátíðarinnar hvetja fólk til að leggja sitt af mörkum með hæfileikum sínum og þáttöku.

Á meðal þeirra listamanna sem koma fram eru Teitur Magnússon, Markús and the Diversion Sessions, Freyja Eilíf, Berglind Hassler, Svavar Pétur, Iona Sjöfn og Una Lóa.

Hægt er að fræðast nánar um dagskrá hátíðarinnar á Facebook-síðu Pólar Festival.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar