Binda fyrir augu tónleikagesta
![eskifjordur tonlistarhus](/images/stuff/eskifjordur_tonlistarhus.jpg)
Listamaðurinn hverju sinni fer með gesti í ferðalag um ókunnar og spennandi slóðir en allir gestir tónleikana eru með bundið fyrir augun. Þessi óvenjulega nálgun gefur listamanninum frelsi til að koma tónleikagestum á óvart því engir fordómar lita upplifun þess sem ekki sér.
Tónlistin er oftast frumsamin og í fyrra notuðust listamenn við hljóðfæri allt frá gíturum, saxófónum, flýglum og saumavélum yfir í kaktus tengdan gítareffectum, síma, fossa og fugla. Þar sem áhorfandinn sér ekki kaktusinn þykja honum hljóðin sem koma ekki vera skrítin, heldur forvitnileg.
Tónleikarnir eru hljóðblandaðir í surround, svo hljóðin skella á tónleikagestum úr öllum áttum. Hljóðmaðurinn Guðjón Birgir Jóhannsson sér um hljóðblöndun.
Garðar Eðvalds og Einar Bragi spiluðu á fyrstu Allt-öðruvísi tónleikum sumarsins seinasta miðvikudag og núna á miðvikudaginn eiga Halldór Waren og vinir sviðið.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og eftir það er húsinu lokað. Tónleikagestum er boðið upp á súpu og brauð og kostar 1500 krónur inn á hverja tónleika.
Dagskrá tónleikaraðarinnar út sumarið
8. júlí - Halldór Waren & vinir.
15. júlí - Berglind Ósk sagnaþula.
22. júlí - Friðrik Karlsson.
29. júlí – Sunna Rán
5. ágúst – Natalia Druzin og Lilja Eggertsdóttir
12. ágúst – Þorlákur Ægir Ágústsson