Eistnaflug á DVD: Stærsti tónleikapakki sem komið hefur út á Íslandi

eistnaflug 2014 0025 webMarkmiðið var að kynna hátíðina, bæinn og hljómsveitarinnar segir framleiðandi fjögurra diska DVD-pakka um þungarokkshátíðina Eistnaflugs sem nýkominn er út. Talað er um hann sem stærsta tónleikapakka sem komið hafi út hérlendis.

„Fólk segir mér að þetta sé sá stærsti. Þetta eru 90 lög með 46 hljómsveitum af hátíðinni í fyrra á þremur diskum og á fjórða diskinum er heimildamynd um hana og aukaefni," segir Siggi Jensson sem stendur að baki verkefninu.

Austurfrétt hafði tal af Sigurði á austurleið í dag en hann sagði bílalest vera vera eftir suðurströndinni í átt til Norðfjarðar þar sem hátíðin hefst í kvöld.

Hann er búsettur á Norðfirði en hefur haldið mikið til syðra síðustu mánuði við lokafrágang DVD-pakkans. Ljóst er að mikil vinna er að baki því undirbúningur hófst löngu áður en hátíðin var haldin í fyrra.

Þangað fékk hann tvö tökulið. Annað þeirra tók upp tónleikana alla en hitt gerði heimildarmyndina „Ekki vera fáviti" sem sýnd var í Sjónvarpinu á mánudagskvöld.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég fór fyrsta á hátíðina 2008. Ég var að horfa í kringum mig eftir myndavélum og velti fyrir mér hví þetta væri ekki tekið upp. Hugmyndin hélt áfram að gerjast í mér og 2013 nefndi ég það við Stebba (Magnússon, skipuleggjanda) hvort þetta væri ekki möguleiki. Hann tók vel í hana og við létum hana verða að veruleika þegar hátíðin var haldin í tíunda sinn í fyrra.

Síðan hefur allt verið klippt upp á nýtt og hljóðblandað þannig það er mikil vinna að baki þessu. Maður hefur ekki her af fólki eins og plötufyrirtækin þannig maður hefur þurft að gera mikið sjálfur en líka fengið gott fólk með."

Það var því takmarkað sem hann gat fylgst með hátíðinni sjálfur í fyrra. „Það dugði ekkert minna að taka allt upp. Maður fór aðeins niður í sal og við og við en aðallega skaust ég í hitt og þetta sem þurfti að redda. Ég þurfti líka að vera mikið baksviðs til að fá samþykki hljómsveitanna fyrir að nota upptökurnar af þeim."

Hann segist líta á upptökurnar sem samfélagslegt verkefni. „Ég vildi kynna hátíðina, hljómsveitirnar og bæinn. Það voru allir af vilja gerðir til að vera með."

Sem fyrr segir var heimildamyndin sýnd í Sjónvarpinu í byrjun vikunnar og viðtökurnar hafa verið jákvæðar. „Fólk hefur sent mér skilaboð og talað við mig um hana. Margir segjast detta inn í hana og sumir væru til í að hafa hana 90 mínútna langa."

Og hann er spenntur fyrir hátíðinni í ár. „Hún er að stækka því hún verður í íþróttahúsinu og ég hlakka til að sjá hvernig það kemur út. Stemmingin í Egilsbúð er sérstök en þetta eru flott bönd og vel að öllu staðið."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar