Snjóboltinn rúllar á Djúpavogi á morgun

rullandi sjobolti staffAlþjóðlega myndlistarsýningin „Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur" opnar í Bræðslunni á Djúpavogi á morgun. Á Skriðuklaustri verða í kvöld tónleikar og Sigga Björg sýnir í galleríinu.

Sýning undir yfirskrift snjóboltans er haldin á Djúpavogi annað árið í röð en hún er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar CEAC. Alls taka 26 listamenn frá Kína, Íslandi, Hollandi og fleiri löndum þátt í sýningunni.

Þátttakendur fyrir Íslands hönd eru Árni Páll Árnason, Finnbogi Pétursson, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Kristján Guðmundsson, Ólöf Nordal, Ragnar Kjartansson, Rúna Þorkelsdóttir, Sigurður Guðmundsson og Þór Vigfússon.

CEAC er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar, listamanni. Eitt af markmiðum CEAC er að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlanda. Stofnunin hefur í gegnum árin kynnt bandaríska, kanadíska, ástralska og íslenska listamenn í Kína. Sýningin í fyrra var sú fyrsta sem stofnunin stendur fyrir utan Kína.

Opnunarhátíð sýningarinnar fer fram í Bræðslunni á Djúpavogi á morgun milli kl. 15:00 og 17:00. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra mun opna sýninguna ásamt Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi. Boðið verður upp á mat úr drykk úr héraði.

Seyðfirðingurinn Arnar Þór Guttormsson, sem nú býr í Bandaríkjunum, mætir með kassagítarinn í Skriðuklaustur í kvöld ásamt söngkonunni Ashley Mirando. Þau munu skemmta gestum með gamalli og nýrri amerískri sveitatónlist í bland við klassískt rokk og frumsamið efni. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00.

Þá sýnir myndlistarkonan Sigga Björg Sigurðardóttir teikningar og videóverk í gallerí Klaustri undir yfirskriftinni „Nocturnius er hættur að skrifa ljóð." Sigga Björg útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist frá Listaháskólanum í Glasgow árið 2004 og hefur síðan starfað sem listamaður og sýnt víða um heim. Sýningin á Skriðuklaustri stendur til 19. júlí og er opin kl. 10-18 alla daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar