Eistnaflug: Innréttuðu sendiferðabíl til að þurfa ekki að sofa í tjaldi
![van halen van 0003 web](/images/stories/news/2015/van_halen_van_0003_web.jpg)
„Við gerðum hann næstum íbúðarhæfan. Við vorum til klukkan fimm á miðvikudagsmorgun að klára það sem við ætluðum að gera í vetur," segir Andri Hrafn.
Dodge sendiferðabíllinn var mjög ryðgaður þegar hann var keyptur síðasta haust. Mestur tíminn hefur því farið í að sjóða í boddíið til að laga ryðgöt. „Það eru tugir vinnustunda að baki þar og margar andvökunætur."
Minni háttar gangtruflanir voru í bílnum en þær voru lagaðar með nýjum startara. Bílinn athugasemdalítið í gegnum skoðun og síðustu daga hefur verið bætt úr þeim.
Bílinn er síðan búið að innrétta með trébekk sem hægt er að liggja á til að hvílast en má einnig breyta í bekki og borð þess á milli. „Við keyptum bílinn því við nenntum ekki að sofa í tjaldi," útskýrir Einar Sveinn.
„Hann er vindheldur, heldur nokkurn vegin vatni og er töff," segir Einar sem er að fara á Eistnaflugið í sjöunda sinn. „Þarna er besta stemming sem ég hef upplifað á útihátíð. Tónlistin er góð, félagsskapurinn góður og aldrei neitt kjaftæði."