Hlussubolti verður í boði á Austurlandi

17561678855 c7e81eb05e oÍ lok sumars gefst Austfirðingum tækifæri til að spreyta sig í hlussubolta, en þar klæða þátttakendur sig í stórar uppblásnar plastkúlur og spila síðan fótbolta eða leika aðra leiki.

Hlussubolti er tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi, en hægt hefur verið að spreyta sig á honum í Reykjavík síðustu ár og hefur það notið mikilla vinsælda. Guðjón Hilmarsson og Bylgja Borgþórsdóttir á Egilsstöðum fengu hugmyndina vegna skorts á afþreyingu á Austurlandi og eru nú að koma henni í framkvæmd.

„Við ákváðum bara að prófa þetta af því að það er ekkert svona hérna,“ sagði Guðjón í samtali við Austurfrétt fyrr í dag. Guðjón er kennari og þegar hann var að skipuleggja öðruvísi dag fyrir börnin, rak hann sig á það að afþreying á svæðinu er afskaplega takmörkuð. „Það er ekkert rosalega mikið af afþreyingu fyrir fólk sem er 15 ára og uppúr á Austurlandi. Ég og Bylgja konan mín ákváðum því bara að prófa þetta.“

Guðjón og Bylgja eru að panta boltana frá Kína og segir Guðjón að þau hjónin viti voðalega lítið út í hvað þau eru að fara eða hvernig viðtökurnar verði. „Við vonumst til að geta hafið starfsemina um leið og boltarnir koma, vonandi bara í ágúst. Það á ekki að taka langan tíma að fá þetta sent.“

Geta farið um allt Austurland
Hlussuboltinn verður með sínar aðalbækistöðvar á fótboltavellinum í Selskógi á Egilsstöðum. „Við erum búin að fá leyfi frá sveitarfélaginu til þess að vera þar og þar höfum við allt til alls. Þar er salernisaðstaða og ágætis völlur og nóg pláss fyrir allskonar leiki,“ segir Guðjón.

Þó er hægt að fara með kúlurnar út um allt og það er ekkert því til fyrirstöðu að spila Hlussubolta innandyra í íþróttahúsum á veturna. „Það er ekkert mál fyrir aðila hvar sem er á Austurlandi að hafa samband við okkur, því það er ekkert mál að ferðast með þetta. Þeir sem myndu til dæmis vilja fá þetta á Fáskrúðsfjörð þyrftu bara að redda velli og aðgengi að rafmagni til að blása upp boltana.“

Guðjón og Bylgja eru að hópfjármagna Hlussuboltann á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. „Við erum að hópfjármagna þetta og þá sjáum við hvort fólk hafi áhuga á þessu. Fólk getur keypt leiki fyrirfram og hjálpað okkur þannig að fjármagna reksturinn.“

Hér að neðan eru tenglar þar sem hægt er að fræðast meira um verkefnið og einnig má sjá ótrúlegt hlussuboltamark sem blaðamaður Austurfréttar skoraði eitt sinn.

Karolina Fund-síða verkefnisins 

Hlussubolti á Facebook 



Mynd: Creative Commons

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.