Helgin: Messað í Klyppsstaðarkirkju á sunnudag
Árleg messa í Klyppstaðarkirkju í Loðmundarfirði verður á sunnudaginn. Listahátíðinni LungA lýkur á Seyðisfirði á morgun og í Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík stendur yfir myndlistarsýning.Sr. Þorgeir Arason predikar og þjónar fyrir altari í messunni á Klyppsstað ásamt sr. Vigfúsi I. Ingvarssyni. Félagar úr Kór Seyðisfjarðarkirkju leiða almennan söng. Kirkjukaffi drukkið í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
Ferðafélagið stendur í tengslum við messuna fyrir kirkjuferð eldri borgara á Klyppstað í leiðsögn sr. Vigfúsar. Til kirkjunnar þarf að áætla um 1,5 klst. akstur frá Borgarfirði eystra en messan hefst klukkan 14:00. Vegurinn er aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum.
Listahátíðinni LungA á Seyðisfirð lýkur um helgina en þar hafa yfir 120 ungmenni tekið þátt í átta listasmiðjum í vikunni. Afrakstur þeirra verður sýndur á lokasýningu sem hefst 14:00 á morgun.
Í kvöld verður danssýning í Herðubreið og hátíðinni lýkur að vanda að kvöldi laugardags með stórtónleikum. Meðal þeirra sem koma fram í ár eru Sykur, Grísalappalísa, DJ flugvél og geimskip og Reykjavíkurdætur.
Í Hótel Bláfelli hanga í sumar uppi myndir í móttökunni með myndum eftir Kristínu E. Guðjónsdóttur. Kristín nam hjá Margréti Zophaníasdóttur myndlistakonu og kennara á árunum 2009-2014. Myndirnar eru málaðar á masónít með olíulitum.
Tónleikaröð sumarsins heldur áfram í Fjarðaborg á Borgarfirði. Að þessu sinni mæltir til tökulagasveitin Killer Queen sem spilar helstu lög bresku sveitarinnar Queen. Heimamaðurinn Magni Ásgeirsson fer þar fremstur í flokki.
Mynd: Magnús R. Jónsson