Safna fyrir björgunarsveitina Ísólf í minningu Hörpu
Glösin sem eru til sölu eru merkt 120 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar og hafa verið í sölu frá því fyrr í sumar. „Við byrjuðum á að láta framleiða þessi glös fyrir 120 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar. Svo þegar þetta kemur upp á, að við missum okkar starfsmann hérna í sjoppunni, þá langaði okkur að gera eitthvað,“ segir Inga í samtali við Austurfrétt.
„Lions-klúbburinn var búinn að vera með sína söfnun fyrir hjartahnoðtæki, sem var hið besta mál en okkur fannst við þurfa að gera eitthvað fyrir björgunarsveitina líka. Því ákváðum við að gefa 1000 krónur af hverju seldu glasi til björgunarsveitarinnar, í nafni Hörpu,“ segir Inga.
Inga segir björgunarsveitina vera dýrmæta, bæði fyrir þau persónulega og fyrir bæjarfélagið. Þegar Lions-klúbburinn var kominn með hjartahnoðtækið hafi þeim orðið léttara um að láta björgunarsveitina njóta góðs af söfnuninni.
Eins og svo margir aðrir í samfélaginu á Seyðisfirði missti Inga mikið þegar Harpa féll frá. „Hún á það svo sannarlega skilið að hennar sé vel minnst. Við misstum alveg frábæran starfsmann og án þess að vera að lasta aðra starfsmenn hér, þá var hún eins og litla barnið okkar,“ segir Inga.