„Kjöt í karrý með rabbabarasultu": Aldís Fjóla Borgfjörð í yfirheyrslu

borgfjord 0059 shwebSöngkonan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir er í yfirheyrslu vikunnar. Hljómsveit hennar, Borgfjörð, hélt nýverið tvenna tónleika á Austurland – en hún var stofnuð vorið 2014 og var fyrsta banda á svið á Bræðslutónleikunum í fyrra.

Hljómsveitin er skipuð borgfirðingnum Aldísi Fjólu Borgfjörð Ásgeirsdóttur söngkonu, Birgi Þórissyni píanóleikara, Birgi Bragasyni bassaleikara, Friðrik Jónssyni gítarleikara, Halldóri Sveinssyni fiðluleikara og Inga Birni Róbertssyni trommuleikara.

Sveitin sendi í vetur frá sér lag sem komst á vinsældalista Rásar 2 og hefur undanfarna daga dvalið eystra og samið nýtt efni.

Fullt nafn: Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

Aldur:
33 ára

Starf:
Söngkona og leiðsögumaður á Skriðuklaustri

Maki:
Einhleyp

Börn:
Engin

Mesta undur veraldar? Heilinn í okkur. Það er ótrúlegt hvað er hægt að láta hann stjórna sér stundum en magnað þegar maður lærir að stjórna honum.

Hver er þinn helsti kostur?
Ég er ákveðin og geri mitt besta í að vera góður vinur vina minna.

Hver er þinn helsti ókostur?
Ég get breyst í fimm ára krakka í þrjóskuköstum. En ég er að vinna í því.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Ég fer í göngutúr þegar ég nenni eða ligg einfaldlega undir sæng og horfi á endalaust af misgáfulegum þáttum með „Maarud ost og lauk snakk", rauða voga ídýfu, kúlusúkk, Dracula mola og mikið af kóki. Bara til að vera nákvæm.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Án efa pabbi minn og mamma. Þau kenndu mér að gefast aldrei upp og taka öllum áskorunum lífsins sem verkefni hverju sinni sem þarf að leysa.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Í sumar er týpiskur dagur hjá mér að taka á móti fólki í vinnunni á Skriðuklaustri og fræða þau um klaustrið á Skriðu og Gunnar Gunnarsson. Á kvöldin leggst ég oftast í þáttagláp eða fæ mér rúnt eitthvert til vina minna.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju?
Ég er gríðarleg haustmanneskja. Mér finnst litirnir á haustin eitt það fallegasta við náttúruna.

Tónlistarsmekkur?
Algjör alæta. Þó tróna Pearl Jam og Kaizers Orchestra á toppnum yfir uppáhalds hljómsveitir.

Hvað trónir í þremur efstu sætunum á þínum „Bucket lista"?
: Fara til Asíu með vinkonu minni, halda tónlistarvinnubúðir fyrir unga tónlistarmenn og gefa út plötu með hljómsveitinni minni, Borgfjörð.

Ef þú fengir tækifæri til þess að breyta einum hlut til batnaðar á landinu, hvað væri það?
Til að vera hrikalega eigingjörn myndi ég bæta veginn til Borgarfjarðar eystra. Eins og hann er í dag er hann bara grín.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Kjöt og karrý með rabbabarasultu. Helst heima með pabba og nágrönnum okkar á Geitlandi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Ég læt uppvaskið staflast allhressilega upp, líklega af því ég „hef ekki tíma" til að klára það.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Borgarfjörður eystra eins og hann leggur sig og Stórurð á góðum sumardegi.

Hvað bræðir þig?
Falleg augu og brjálaðir tónlistarhæfileikar.

Settir þú þér áramótaheit?
Nei, mér finnst betra að setja mér markmið yfir árið fyrir eitthvað sem ég ætla að afreka. Það er ágætis listi.

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Ég mun fara heim á Borgarfjörð eystra og halda Bræðsluna hátíðlega með fjölskyldu og vinum. Mun taka myndir á Bræðslunni sem hirðljósmyndari hennar eins og ég hef gert síðustu níu ár. Eftir Bræðsluna mun ég síðan vaka og njóta þess að vera með þessu frábæra fólki sem fyllir fjörðinn. Á sunnudaginn er síðan kjötsúpa hjá pabba og almenn slökun. Við sjáumst á Bræðslunni!


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar