Verður að framkvæma hugmyndir sínar innan sólarhrings: KOX með ljósmyndasýningu á Bræðslunni
„Þetta var nú bara hugdetta, að vera með og gera eitthvað sniðugt á heimaslóðum," segir Kormákur Máni sem á ættir sínar að rekja á Borgarfjörð."
Um útisýningu var að ræða sem hengd var utan á húsið Kögur. „Ég sýndi nýjustu myndirnar mínar og frumsýndi eina glænýja. Ég hef aldrei haldið útisýningu áður en þótti það tilvalið á Bræðslunni til þess að allir gestir gætu notið hennar. Myndirnar voru prentaðar út, gengið frá þeim í sérstaka plastvasa, heftaðar á mjög lélegar plötur og að endingu límdar niður á hornunum svo þær myndu nú örugglega ekki fjúka. Sýningin var því eins hrá og mögulegt var."
Kormákur Máni er iðinn með myndavélina en nær þó ekki að mynda eins mikið og hann sjálfur vildi. „Ég er alltaf að brasa eitthvað með vinum mínum. Ef ég fæ hugmynd verð ég að framkvæma hana strax, helst innan sólarhrings. Ef ég geri það ekki verð ég yfirleitt fyrir vonbrigðum með útkomuna, þar sem ég ofhugsa tökuna og myndirnar verða flatar og leiðinlegar."
Kormákur Máni er með mörg járn í eldinum og búast má við skemmtilegum hlutum frá honum á næstunni.
![kox4](/images/stories/news/2015/kox4.jpg)