„Engin leið að hætta": Þórfríður Soffía í yfirheyrslu

thorfridur soffia webStjórnandi Neistaflugs, Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir er í yfirheyrslu Austurfréttar þessa vikuna.

Þórfríður Soffía er með B.ed í kennslufræðum með áherslu á textílmennt og kennir textílmennt við Nesskóla í Neskaupstað. Hún tekur einnig bakvaktir sem sjúkraflutningamaður á sjúkrabílnum í Neskaupstað. Hún er svo að hefja nám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst í haust.

Þórfríður Soffía stýrir nú Neistaflugi í fjórða skipti, en henni bauðst að hoppa um borð fyrir fjórum árum og segir enga leið að hætta, verkefnið sé svo skemmtilegt og gefandi.

Hennar starf felst í því að skipuleggja hátíðina frá a-ö, bóka skemmtikrafta og allt í kringum þá, sækja um öll nauðsynleg leyfi og sjá til þess að allt haldi áætlun og takist vel til.

„Undirbúningurinn í ár hefur gengið virkilega vel. Ég er með góða nefnd með mér og við vinnum vel saman og erum eins og smurð vél. Þetta væri ekki hægt nema hafa gott fólk á bak við sig.

Bærinn er að fyllast af fólki, hverfin eru orðin vel skreytt og allt eins og það á að vera. Meira að segja veðrið er gott," segir Þórfríður Soffía.


Fullt nafn: Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir.

Aldur: 32.

Starf: Grunnskólakennari, sjúkraflutningakona og framkvæmdastjóri Neistaflugs.

Maki: Nei.

Börn: Á einn yndislegan son sem heitir Þórarinn Viðfjörð Guðnason.

Áhugamál? Leiklist, vera í kringum fólk, prjóna, sauma og bara ýmislegt.

Hver er þinn helsti kostur? Sennilega sá að ég reyni að finna lausn á öllu og ég tel mig vera jákvæða.

Hver er þinn helsti ókostur? Á það til að segja hluti í hugsunarleysi.

Hvernig líta kosífötin þín út? Náttbuxur og einhver bolur.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Uuuu er Sushi skyndibiti? Ef ekki, ætli það sé þá ekki bara hamborgari, mínus ostur.

Þrjú efstu atriðin á „bucket listanum"? Sennilega bara að ferðast, ferðast svo meira og skoða fullt af hlutum.

Ef þú fengið að breyta einhverju í heiminum, hvað væri það? Að fólk væri ekki að skjóta og drepa annað fólk.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að brjóta saman þvott og ganga frá honum.

Draumastaður í heiminum? Sko Viðfjörður er alltaf minn draumastaður, en ef ég á að velja einhvern stað sem ég hef ekki farið á þá væri það sennilega Grikkland, Ítalía, Skotland, Ástralía... á ég að hætta að telja?

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Popp, kók, ís og góð bíómynd.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Vorið, því þá á ég afmæli.

Hver er fyrirmyndin þín og af hverju? Ætli það séu ekki foreldrar mínir sem standa alltaf við bakið á mér.

Mesta undur veraldar? Fæðing.

Syngur þú í sturtu? Stundum.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna, borða, sturta, vinna eða vesenast eitthvað fyrir Neistaflug eða Leikfélag Norðfjaðrar. Kvöldmatur. Horfi á barnaefni með syni mínum, kem honum í rúmið, horfa á sjónvarpið eða vinn í tölvunni og fer svo að sofa. Dagarnir mínir eru mjög oft full bókaðir og ég er að skjótast hingað og þangað og geri hitt og þetta. Það er enginn dagur eins sem er bara gaman.

Best í heimi? Sitja með góðum vinum eða fjölskyldu við varðeld og grilla sykurpúða og spjalla. Þegar maður nær að slaka á í góðra vina hópi er alveg geggjað.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Fara á alla viðburði á Neistaflugi og skemmta mér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar