Gulfstream þota prýðir flugvöllinn á Egilsstöðum
Gulfstream einkaþota hefur vakið töluverða athygli á flugvellinum á Egilsstöðum síðustu daga. Vélin mun vera í eigu eins stærsta alifuglaframleiðanda Bandaríkjanna.Vélin er af gerðinni Gulfstream Aerospace GIV-X og 2005 árgerð með skráningarnúmerið N251HR. Hún er 22ja sæta og með tvær vélar.
Samkvæmt upplýsingum frá vefnum FlightAware hóf vélin sig til flugs frá Duplin County flugvelli í Norður-Karólínu á þriðjudag og lenti hérlendis eftir sex tíma flug.
Vélin er skráð í eigu House of Raeford Farms sem er einn stærsti alifuglaræktandi Bandaríkjanna. Fyrirtækið er í eigu Johnson fjölskyldunnar sem hóf kalkúnarækt í kreppunni miklu.
Fyrirtækið byrjaði fyrst að vaxa eftir seinna stríð þegar Marvin Johnson, sem er nú stjórnarformaður félagsins, hóf að selja afurðir foreldra sína og kjúklingaræktin bættist við.
Sonur hans, Robert Johnson, er núverandi framkvæmdastjóri félagsins. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þess er það áttundi stærsti alifuglaframleiðandi Bandaríkjanna og fimmta veltuhæsta fyrirtæki Norður-Karólínu.
Austurfrétt hefur hvorki upplýsingar um hverjir hafi komið með vélinni austur né hver tilgangur ferðarinnar er.