„Hann bara varð að leggja sig í lífshættu og koma austur"
![gunni helga2](/images/stories/news/2015/gunni_helga2.jpg)
„Nei það hefur ekki komið fyrir fyrr en núna. Við höfum aldrei verið seinir eða misst af neinu, aldrei veikst eða orðið veðurtepptir – en einhverntíman er allt fyrst," segir Felix Bergsson í samtali við Austurfrétt þegar hann er spurður að því hvort annar hvor þeirra hafi áður forfallast.
Forsaga málsins er sú að fyrir rúmri viku festist kjötbiti í hálsi Gunnars og enduðu björgunaraðgerðir með því að tvö rifbein brákuðust og hann hlaut lungnabólgu. Í kjölfarið kom svo í ljós að Gunnar var með rauðkyrningssótt sem veldur bólgum í vélinda og er ástæða þess að bitinn stoppaði á miðri leið.
Gunnar þurfti því að boða forföll á Neistaflug, en saman hafa þeir Felix skemmt á hátíðinni síðastliðin fimmtán ár. Mikil fagnaðarlæti brutust því út á sunnudagskvöldið þegar sjúkrabíll með blikkljósum og sírenum mætti með sjúklinginn á svæðið.
Mun aldrei gleyma viðbrögðum gesta í brekkunni
„Það var ótrúlega skemmtilegt að vinna að þessari uppákomu með Gunna. Við laumuðum honum til Norfjarðar og geymdum hann í bælinu á Hótel Capitanó.
Svo fórum við að pæla í því hvernig við ættum að koma honum inn á svið. Við fengum þessa hugmynd að fá sjúkrabílinn með í lið með okkur. Klikkuð hugmynd og okkur datt eiginlega ekki í hug að menn myndu segja já en viti menn! Þórfríður talaði við slökkviliðið og svarið var strax – já!
Ég mun aldrei gleyma þessum viðbrögðum í brekkunni þegar fólk var að átta sig á því sem var í gangi. Fyrst var eins og menn væru ekki að fatta þetta, svo byrjuðu einhverjir að hlæja og svo urðu fagnaðarlætin ótrúleg þegar drengurinn birtist. Ég var búinn að láta kalla „Gunni, Gunni" og senda honum ljós og ég veit að margir voru komnir með aulahroll í brekkunni en það breyttist um leið og sjúkrabíllinn birtist. Þetta verður lengi í minnum haft og viðtökur gesta voru meiriháttar."
Velta því ekki fyrir sér að fara annað
„Við Gunni komum fyrst á Neistaflug árið 2000 og höfum því komið sextán sinnum á þessa ótrúlegu hátíð. Fyrst vorum við bara „skemmtiatriði" sem svo þróaðist út í það að við fórum að kynna önnur atriði, halda utan um skemmtun á palli og smám saman vatt þetta upp á sig.
Við urðum strax afar hrifnir af bænum og gestum hátíðarinnar að við létum þess getið að okkur langaði til að koma aftur. Svo komum við bara aftur og aftur og aftur. Minningarnar hafa líka hlaðist upp á þessum árum og þær eru ómetanlegar.
Fyrir okkur er Neistaflug algerlega ómissandi og við veltum því ekki einu sinni fyrir okkur að fara annað um verslunarmannahelgina. Um er að ræða raunverulega fjölskylduhátið þar sem mikil virðing borin fyrir börnum og hinir fullorðnu ná að skilja á milli skemmtana dagsins og skemmtana næturinnar – það finnst okkur fallegt og til algjörrar fyrirmyndar. Við höfum eignast marga góða vini, allt frá tveggja ára upp í 99 ára – fólk sem kemur og knúsar okkur, vill gantast og segja okkur sögur.
Það hefur alltaf togað í okkur að koma aftur og aftur. Við erum með fasta punkta alla helgina, heiti potturinn á laugardags og sunnudagsmorgni, brunaslönguboltinn, matur hjá Gunnu Smára og Gumma fyrir varðeldinn, gisting hjá Magna á Capitanó og svo mætti lengi telja – við bara gætum ekki hugsað okkur lífið án alls þessa.
Þið sjáið það, Gunni gat ekki einu sinni hangið í rúminu með lungnabólgu, brákuð rifbein og rauðkyrningssótt. Hann bara varð að leggja sig í lífshættu og koma austur til að syngja nokkur lög fyrir vini okkar."
„Við erum alltaf til í Neistafllugið"
Aðspurður um framhaldið segir Felix. „Ef Norfirðingar og aðrir í Fjarðabyggð vilja okkur viljum við sannarlega koma. Við höldum áfram sem Gunni og Felix, verðum að leika leikritið okkar Bakaraofninn í allan vetur og verðum í þrusustuði til að koma austur eftir ár. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er en við erum alltaf til í Neistaflugið."