„Eistnaflug er upplifun sem orð fá einfaldlega ekki lýst"

eistnaflug 2014 0020 webBlaðamaður Ghost Cult Mag virðist afar ánægður með för sína á Eistnaflugshátíðina í Neskaupstað í síðasta mánuði. Viðmót heimamanna á sinn þátt í upplifuninni.

„Í litlu þorpi á austurströnd Íslands er haldin lítil hátíð sem heitir Eistnaflug og umheimurinn tekur vart eftir," eru upphafsorðin í greininni áður en bent er á að tilkoma stórra alþjóðlegra hljómsveita í ár hafi reyndar vakið nokkra athygli.

„Jafnvel lögreglumennirnir sem voru á vakt nutu þess að hlusta á þær með einhver stærstu bros sem ég hef nokkru sinni séð á mönnum í einkennisbúningi."

Það eru hins vegar ekki þau bönd sem mesta athygli fá í umfjölluninni heldur frekar íslensku böndin í lok hvers dags sem aðdáendur á heimavelli þekkja svo vel. Gimsteinarnir felast líka í óþekktari hljómsveitum sem spila utan dagskrár.

En ekki síst er það umhverfið og viðhorf bæjarbúa sem vekur athygli blaðamanns Ghost Cult Mag. „Að ganga út af dimmum tónleikastaðnum klukkan tvö að nóttu inn í það sem lítur út eins og dagsljós er framandi. Partýið heldur áfram um allan bæ, einkum á tjaldstæðinu.

Vanalega halda þau áfram þar til sundlaugin, sem er utanhúss, opnar. Það geir hún snemma og er opin lengi. Hún er stór þáttur í hátíðinni. Nokkrir hátíðargestir sofa ekki í tjöldum sínum heldur skemmta sér þar til laugin opnar, halla sér síðan í lauginni þar til fjörið byrjar á ný klukkan tvö að degi.

Vingjarnlegt viðmót heimamanna er hluti af ótrúlegri stemmingunni. Þeir buðu hátíðargestum far í ískaldri rigningunni þegar hin svokallaða „Austfjarðaþoka" flæddi yfir tjaldsvæðið á föstudag.

Það er ákveðin heimilisbragur á hátíðinni. Það er ótrúlegt að finna hvernig ringulreiðin er við að sundra öllu en ákveðni og útsjónarsemi skipuleggjendanna tryggir einhvern vegin að allt gengur upp og jafnvel betur en áætlað var," skrifar Ghost Cult Mag.

Dæmi um þetta eru um hvernig hátíðargestum hafi verið boðið húsaskjól í Egilsbúð þegar tjöld þeirra rigndu í kaf á tjaldsvæðinu og að haldnir skulu fjölskyldutónleikar á miðvikudegi í upphafi hátíðarinnar þar sem börn undir sextán ára fái að vera úti til klukkan tíu á kvöldi.

Og svo fer í lokin að blaðamaðurinn hefur vart pláss til að segja allt sem hann vill. „Að svo sögðu þá hef ég vart haft pláss til að minnast á öll fáránlegu áhættuatriðin eða búningana sem hátíðargestir klæðast, né frábærar pallborðsumræður í Hildibrand-hótelinu.

Eistnaflug skilur bæði eftir sig spennu og þreytu og það tekur tíma sinn að melta hátíðina. Hún er vel staðsett fyrir þá sem vilja staldra við á leið sinni milli Evrópu og Bandaríkjanna og ég get ekki annað en hvatt ykkur til að kynnast henni af eigin raun. Hún er upplifun sem verður einfaldlega ekki lýst með orðum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar