Listnemar á Seyðisfirði: Lærði að sauma og flaka fisk

halla birgisdottir trarappa webHalla Birgisdóttir hafði ekki saumað síðan í grunnskóla þegar hún kom austur á Seyðisfjörð ásamt hópi listnema fyrr en í vetur. Tveimur vikum síðar hafði hún saumað kjól úr þæfðri ull sem er meðal sýningargripa á sýningunni Trarappa í Skaftfelli.

Halla klæddist kjólnum sjálf á sýningaropnunni en hann er gráleitur með hvítum doppum og afar síður. 

„Ég fór í skírn um daginn og þar sagði presturinn okkur frá því að skírnarkjólar væru síðir því það ætti að gefa börnunum tækifæri til að vaxa og þroskast upp í kjólinn.“

Bæði kjóllinn og teikningar eftir Höllu eru til sýnis á sýningu listnemanna í Skaftfelli. Hún segir doppumunstrið hafa þróast í gegnum teikningarnar. 

Geturðu hitt mig eftir hálftíma?

Halla setti stefnuna á kjólinn strax eftir fyrsta daginn á Seyðisfirði þar sem nemarnir voru kynntir fyrir Ullarvinnslu frú Láru en þar var ullin í kjólinn þæfð. Þegar kom að því að sauma vandaðist málið. 

„Ég hafði ekkert saumað síðan í grunnskóla og kunni það varla. Ég þurfti einhvern til að hjálpa mér við það.

Ég fékk símanúmer og hringdi í konu sem heitir María Michaelsdóttir. Hún svaraði og sagði: „Já – geturðu ekki komið og hitt mig eftir hálftíma?““

Tekin inn á heimilið

Úr varð að María tók Höllu inn á sitt heimili og hjálpaði henni til að sauma kjólinn út frá teikningu hennar. „Hún hleypti mér inn á heimili sitt og þar borðaði ég hádegismat. Foreldrar hennar voru líka í heimsókn og við spjölluðum og mér var kennt að sauma.“

Hún sat yfir mér og hjálpaði mér með það erfiðasta. Mér finnst kjólinn nokkuð góður miðað við að hann er fyrsta almennilega flíkin mín.“

Veiddu meira en strákarnir

Nemahópurinn gerði fleira en undirbúa sýninguna. „Minnisstæðust er sjóferðin með Halla Pöllu,“ segir Halla.

„Af því hann er bara með leyfi fyrir sjö var okkur skipt í tvo báta. Fyrri daginn fóru strákarnir og tvær stelpur og veiddu 26 þorska. 

Við hinar fórum daginn eftir og markmiðið okkar var að veiða meira. Það gekk, við veiddum 35 þorska og einn steinbít auk þess sem við náðum stærsta fiskinum. Þegar við komum í land var okkur kennt að flaka fiskinn og svo elduðum við hann.“

Listnemarnir, sem eru á þriðja ári í myndlist við Listaháskólann, dvöldust á Seyðisfirði í tvær vikur. Þeir unnu þar að uppsetningu sýningarinnar en síðasta sýningarhelgin er framundan.

„Það var mikill lærdómur að etja upp samsýningu. Það þurfa allir að komast á sína staði í tæka tíð í rýminu. Það var líka gaman að kynnast Seyðisfirði og hversu mörg tækifæri eru hér, til dæmis að sækja um listamannaíbúðir þar sem hægt er að vinna að listsköpun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar