Græjan breytir hjólastólnum í rafknúið þríhjól
Fanney heyrði fyrst af tækinu fyrir um ári síðan frá erlendum ferðamönnum, sem heimsóttu hótelið á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal, en þar hefur Fanney starfað undanfarin sumur. „Það voru gestir á hótelinu þar sem ég vinn sem sýndu mér þetta þegar þeir tóku eftir því að ég væri í hjólastól,“ segir Fanney.
Fyrirtækið sem framleiðir tækið er spænskt og Fanney íhugaði í töluverðan tíma að fara út til Barcelona að skoða og prófa tækið. Síðar sá hún að tækið væri einnig til sölu í Danmörku og ákvað að fara þangað í staðinn og prófa græjuna áður en hún tæki ákvörðun um kaup. Þegar hún hafði farið þangað og fengið að prófa, kom ekkert annað til greina að kaupa tækið – og nú er hún komin með það í hendurnar, rúmu ári eftir að hún heyrði fyrst af tilvist þess.
Ekki jafn bundin bílnum
„Þetta breytir mjög miklu fyrir mig. Áður en ég fékk þetta var ég mjög bundin bílnum mínum til að geta haft báða stólana mína með,“ segir Fanney, en rafmagnsstóllinn hennar er fyrirferðamikill og kemst ekki nærri því alls staðar inn.
„Núna er ég ekki jafn bundin bílnum og þarf ekki að vera alltaf með báða stólana mína með mér. Þegar ég fer út að labba með hundinn get ég bara farið á þessu og svo aftengt þetta ef mig langar að kíkja einhversstaðar inn, droppa í kaffi til einhvers eða eitthvað slíkt. Ég gat það aldrei ef ég fór út á rafmagnsstólnum, því að hann kemst hvergi inn, nema bara í Nettó og eitthvað. Það þarf ekki nema smá þröskulda, þá kemst hann ekki inn,“ segir Fanney.
Það er töluverður kraftur í græjunni og Fanney getur farið ansi hratt yfir. „Ég held að hann komist í 25 kílómetra hraða,“ segir Fanney og bætir því við að sennilega sé það eini gallinn við tækið, hvað það sé kraftmikið, en hún spólar oft þegar hún er að taka af stað.
Fanney er oft stoppuð á förnum vegi og spurð út í græjuna. „Það horfa allir á mig og taka eftir því að ég er komin á eitthvað nýtt,“ segir Fanney.