Ormsteiti hefst á morgun: „Þetta er bara allt að smella“
![ormsteiti hverfahatid 0119 web](/images/stories/news/2013/ormsteiti_hverfaleikar/ormsteiti_hverfahatid_0119_web.jpg)
„Það gengur bara rosavel og þetta er allt að hafast. Það er fullt af frábæru fólki sem er með mér í þessu, þannig að þetta er bara allt að smella,“ segir Guðrún Lilja í samtali við Austurfrétt.
Í dag er formlegur skreytingardagur í hverfum sveitarfélagsins en þó segir Guðrún Lilja að sumir séu löngu búnir að skreyta. „Fellamenn tóku sig til á þriðjudaginn og misstu sig í skreytingagleðinni. En svo er formlegur skreytingadagur í dag, þannig að það eiga bara allir að taka saman höndum og skreyta hverfin.“
Dagskrá Ormsteitisins er fjölbreytt og teygir sig víða, en auk dagskrár í þéttbýlinu á Egilsstöðum og í Fellabæ eru viðburðir í Fljótsdal, Möðrudal og víðar. „Ég er spennt fyrir karnivalinu og hverfahátíðinni á laugardaginn og svo finnst mér allt sem Óbyggðasetrið er að gera ótrúlega skemmtilegt. Svo er hreindýraveislan auðvitað alveg toppurinn og Nostalgíuballið sömuleiðis,“ segir Guðrún.
Héraðsvaka, sem haldin verður í Valaskjálf á föstudaginn í næstu viku, er nýr dagskrárliður á Ormsteiti. „Þar er verið að stíla aðeins inn á heldri borgarana okkar, 55+. Jóhannes Kristjánsson eftirherma kemur þá og skemmtir og það verður hagyrðingakvöld.“
Ljóst er að nóg er um að vera á Ormsteiti og Guðrún leggur áherslu á að til þess að sem best til takist verði allir bæjarbúar að leggjast á eitt og taka virkan þátt í hátíðinni.
Dagskrá Ormsteitis má skoða í heild sinni á ormsteiti.is
Mynd: Frá hverfaleikum Ormsteitis árið 2013