Helgin: Ormsteiti hefst, Siggi Hall eldar og Valdimar leikur sín uppáhalds lög í Fjarðarborg
![braedslan 2015 0124 web](/images/stories/news/2015/braedslan_2015/braedslan_2015_0124_web.jpg)
Valdimar Guðmundsson úr hljómsveitinni Valdimar slær síðustu tóna tónleikasumarsins 2015 hjá Já Sæll í Fjarðarborg á Borgarfirði í kvöld. Hann mun flytja sín uppáhalds lög með aðstoð Arnar Eldjárn. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.
Útgáfu ljóðabókarinnar Þar sem bláklukkan grær eftir Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur verður fagnað á útgáfuhófi í Hlymsdölum í dag kl. 17:00. Fjölskylda höfundar flytur dagskrá í tali og tónum, sungin verða lög við ljóð Jónbjargar og lesið úr bókinni.
Meistarakokkurinn Siggi Hall er á ferðinni á milli Eddu-hótela í sumar og eldar þar af sinni alkunnu snilld. Hann er á ferðinni á Austurlandi um helgina og verður hægt að bragða á fjögurra rétta matseðli hans á Hótel Eddu á Egilsstöðum í kvöld, föstudag og á Hótel Eddu í Neskaupstað á laugardagskvöld.
Ormsteiti hefst um helgina með föstum liðum eins og Fellasúpu, karnivali, hverfaleikum á Vilhjálmsvelli og Möðrudalsgleði. Þar verður eflaust mikið um dýrðir. Nánar má fræðast um dagskrána og einstaka viðburði á heimasíðu Ormsteitis.
Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn fer fram á morgun og þeir sem ætla að aka Fljótsdalshringinn í fyrramálið ættu að hafa bæði augun á veginum á leið sinni og sýna hjólreiðamönnum fyllstu tillitssemi.
Golfarar á Austurlandi geta skellt sér á Vopnafjörð og tekið þátt í opna HB Granda mótinu, sem haldið er á Skálavelli á morgun. Upplýsingar og skráning á er á golf.is.
Ferðafélag Fjarðamanna og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs standa sameiginlega að ferð í Vöðlavík á morgun, laugardag. Gengið verður frá kirkjugarðinum í Vöðlavík upp á Svartafjalla, þaðan á Sauðatind og af honum á Krossanesmúla og síðan niður í Vöðlavík. Mæting kl. 9 við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og kl. 10 við afleggjarann til Vöðlavíkur.
Landsvirkjun verður með dagskrá á Egilsstöðum og við Kárahnjúkastíflu um helgina, í tilefni 50 ára afmælis Landsvirkjunar. Við Bílaverkstæði Austurlands verður sýning á rafbílum og rafknúnum reiðhjólum á laugardag á milli 13 og 16.
Í Hótel Valaskjálf verður heimildarmyndin Búrfell sýnd á hálftíma fresti á laugardag, sömuleiðis á milli 13 og 16. Þá verður leiðsögumaður við Kárahnjúkastíflu laugardag og sunnudag á milli 14 og 17. Sagt verður frá framkvæmdunum og náttúrufari undir norðanverðum Vatnajökli.
Guðsþjónustur verða í Möðrudalskirkju og Þingmúlakirkju um helgina. Á Möðrudal verður messað á laugardag kl. 14 en í Þingmúlakirkju verður kvöldguðsþjónusta kl. 20 á sunnudagskvöld.
Góða helgi!