Iceland Monitor kallar Norð Austur besta sushistað landsins

nord austur sushiBlaðamaður Iceland Monitor segir að Norð Austur sushi-staðurinn á Seyðisfirði sé sá besti í sínum geira á landinu. Staðurinn hefur fengið frábærar viðtökur hjá heimamönnum sem gestum á sínu fyrsta sumri.

„Maturinn á Norð Austur sushi er svo magnaður að ég verð að viðurkenna að ég hef ekki fengið betri japanskan mat á Íslandi og gullfallegt umhverfið ljáir honum sannarlega magnþrunginn blæ.

Ég mæli alltaf með heimsókn til Seyðisfjarðar og í hreinskilni sagt þá er það þess virði að gera sér sérstaka ferð á þennan stað."

Þetta ritar blaðamaður Iceland Monitor, hliðarafurðar Mbl.is sem fjallar um íslensk málefni á ensku í dómi sínum um staðinn.

Staðurinn er staðsettur á efri hæð Hótel Öldunnar í miðbæ Seyðisfjarðar, var opnaður í byrjun sumars og er opinn til 5. september.

„Okkur fannst Seyðisfjörður þurfa fjölbreyttari veitingastaði," er haft eftir Davíð Kristinssyni sem einnig á Ölduna og Skaftfell Bistro með Dýra Jónssyni.

Hann segir þá félagana hafa leitað eftir framúrskarandi sushi-kokkum, sem væru tilbúnir að breyta til og fara til Seyðisfjarðar, í Bandaríkjunum og Evrópu. Tveir komu frá New York og sá þriðji frá Spáni og hafa kunnað vel við sig á staðnum, að sögn Davíðs.

Það auki á ánægju þeirra að fá ferskt fiskmeti beint frá heimamönnum á staðnum.

Austfirðingar hafa verið duglegir við að heimsækja staðinn í sumar og verið ánægðir með, miðað við umræðu á samfélagsmiðlum og kaffistofum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar