Fann "bláa" vísu bak við vegglista í kirkjunni
![kirkjubaer10](/images/stories/news/2015/kirkjubaer10.jpg)
Gistiheimilið Kirkjubær hefur verið starfrækt í „gömlu kirkjunni" á Stöðvarfirði frá því 1991. Kirkjan var upphaflega byggð á kirkjustaðnum Stöð í Stöðvarfirði árið 1879 en tekin niður og endurreist í kauptúninu á Stöðvarfirði um 1925. Hún var afhelguð 1991, þegar nýja kirkjan sem stendur utar í þorpinu var tekin í notkun.
„Þeir sem að koma til þess að gista í Kirkjubæ gera það gagngert til þess að upplifa það að gista í gamalli kirkju og ekkert þýðir að bjóða þeim aðra gistingu ef hún er bókuð," segir Birgir Albertsson, einn eigenda Kirkjubæjar – en auk hans eru eigendur þau Ingibjörg Eyþórsdóttir, Jón Karl Helgason og Fríða Jónsdóttir.
Allt vitlaust á kirkjuþingi
Birgir segir hugmyndina hafa kviknað við eldhúsborðið heima hjá sér á sínum tíma, en hann býr beint fyrir neðan gömlu kirkjuna þannig að hún blasir við út um eldhúsgluggann. „Jón Karl kom með þá hugmynd að kaupa kirkjuna og gera úr henni sumarbústað," segir Birgir en hugmyndin þróaðist svo út í gistihúsarekstur.
„Við þurftum sáralítið að gera við húsnæðið, aðeins að útbúa hreinlætisaðstöðu, eldhúskrók og einhverjar minni lagfæringar. Við ákváðum að halda bæði altarinu og predikunarstólnum inni," segir Birgir og nefnir að sú ákvörðun hafi dregið dilk á eftir sér.
„Það varð allt vitlaust á kirkjuþingi árið sem við keyptum kirkjuna, það þótti alger fásinna að hún hefði verið seld með predikunarstólnum og öllu – Gunnlaugur (Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur) var hundskammaður fyrir vikið. Ég sé ekki hvað þetta ætti að gera, er ekki skemmtilegra að fólk fái að njóta þessara muna en að þeir hefðu verið settir í geymslu og aldrei komið aftur fyrir almenningssjónir?"
Einstaka draugahræðsla
Birgir segir það örsjaldan koma fyrir að fólk hiki við að gista þegar það áttar sig á að um gamla kirkju sé að ræða. „Það hefur einstaka sinnum gerst, það er kannski einhver draugahræðsla. Það er örugglega heilmikið líf þarna uppfrá, ég er ekki í vafa um það. Það gisti einu sinni maður í kirkjunni sem sagði mér daginn eftir að það hefði verið mikið fjör um nóttina. Ég áttaði mig ekki á því um hvað hann var að tala í fyrstu en hann var að vísa til þess að hann hefði upplifað fjölmenni í kringum sig – hvort hann hefur verið skyggn, það veit ég ekki."
Rúsínan í pylsuendanum
Kirkjubær hefur verið vinsæll gististaður meðal ferðamanna, íslenskra sem og erlendra.
„Það er algengt að fólk komi aftur og aftur, þá með einhverja sem það vill sýna staðinn. Ég held að fólki þyki það mjög sérstakt að gista í gamalli kirkju en það verður fyrst hrifið þegar ég sýni því rúsínuna í pylsuendanum," segir Birgir.
„Þegar ég var að skipta út gömlu gólflistunum í kirkjunni á sínum tíma fann ég vísu sem skrifuð hafði verið aftan á einn listann áður en hann var negldur niður. Hún er svolítið blá en engu að síður mjög falleg og búin að liggja upp við vegg síðan 1925," segir Birgir og fer með vísuna:
Vilt þú naðurs linda lín
leyfa það án biðar.
Tveggja blaða bók í þín
barnsgetnað að skrifa.
„Undir vísuna skrifar Erlendur á Kirkjubóli við Stöðvarfjörð með sinni eigin hendi. Í vísunni er maður að biðla til lauslátrar konu að koma mér sér í rúmið án tafar. Karlmenn hafa penna og konur bók og hann vildi fá að skrifa í bókina hennar.
Þetta þykir fólki afar fróðlegt og skemmtilegt að heyra. Ég fór einu sinni með vísuna fyrir danskan hóp og lét fylgja að höfundurinn ætti fjölda afkomenda. Kona úr hópnum svaraði með því að hann hefði þá verið duglegur að skrifa sá," segir Birgir og hlær.
![kirkjubaer1](/images/stories/news/2015/kirkjubaer/kirkjubaer1.jpg)
![kirkjubaer2](/images/stories/news/2015/kirkjubaer/kirkjubaer2.jpg)
![kirkjubaer3](/images/stories/news/2015/kirkjubaer/kirkjubaer3.jpg)
![kirkjubaer10](/images/stories/news/2015/kirkjubaer/kirkjubaer10.jpg)