Snjóboltinn hættir að rúlla á laugardag: „Aðsóknin hefur verið mjög góð“

rullandisnjobolti6Næstkomandi laugardag, 22. ágúst, er síðasti séns til að fara á samtímalistsýninguna Rúllandi snjóbolta/6, Djúpivogur. Sýningin er  samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar (CEAC) í Xiamen, Kína. Viðtökur sýningarinnar hafa verið góðar í sumar að sögn Erlu Dóru Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps.

„Aðsóknin hefur verið mjög góð, það hafa um 3500 manns sótt sýninguna og það er frábært fyrir Austfirðina að hafa svona flott aðdráttarafl hérna á Djúpavogi,“ segir Erla Dóra í samtali við Austurfrétt.

Sýningin opnaði 11. júlí síðastliðinn að viðstöddum Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra og Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi. Síðan þá hefur fjöldinn allur af ferðamönnum og heimamönnum lagt leið sína í Bræðsluna til að virða verkin á sýningunni fyrir sér, en um er að ræða verk 26 samtímalistamanna frá Kína, Hollandi, Íslandi og öðrum löndum.

Í tengslum við Rúllandi snjóbolta/6, Djúpivogur hafa tveir listamenn dvalið á Djúpavogi sem gestalistamenn CEAC. Listamennirnir eru þau Kan Xuan frá Kína og Hrafnkell Sigurðsson. Erla Dóra segir það hafa verið frábært að hafa þau á svæðinu.

„Hrafnkell var að vinna mikið með listamönnum hérna á svæðinu, til dæmis Jóni Friðriki Sigurðssyni, sem er með JFS Handverk. Kan Xuan var mikið að fá innblástur hérna og kynnast fólki á svæðinu, hún var til dæmis mikið með Þóri Vigfússyni og konu hans. Það er flott fyrir okkar listamenn að kynnast heimsþekktum listamönnum og fá að vinna með þeim,“ segir Erla Dóra, sem hvetur alla sem hafa ekki enn farið á sýninguna til þess að skella sér, áður en það verður of seint.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar