Helgin: Grettir sterki lifnar við, Ormsteiti endar á Fljótsdalsdegi og SKAUST heldur veislu á Þuríðarstöðum

einar karaÞað er eitt og annað hægt að finna sér til dundurs á Austurlandi um helgina og margir áhugaverðir viðburðir fara fram. Ormsteiti heldur áfram og lýkur á sunnudag með Fljótsdalsdegi, auk ýmissa annarra viðburða víða um Austurland.

Í kvöld fer fram Héraðsvaka í Valaskjálf þar sem verður létt og skemmtileg dagskrá með tónlistaratriðum. Stefán Bogi Sveinsson og Þorsteinn Bergsson stjórna hagyrðingakvöldi.

Á laugardag verður miðbæjarhátíð á Egilsstöðum, þar sem fer fram kökukeppni, tækjasýning START, Héraðsmarkaður á Símstöðvarplaninu, söngvakeppni barna undir stjórn leikhópsins Lottu og bændur af Austurlandi verða með húsdýr og húllumhæ við Skattstofuna, gegnt tjaldsvæðinu. Um kvöldið verður svo hin árlega hreindýraveisla í Kornskálanum og síðan er Nostalgíuball með Á Móti Sól í Valaskjálf.

Á sunnudag er Fljótsdalsdagur, en þar verður fossaganga frá Laugarfelli kl. 9:45, boðið verður upp á skoðunarferðir í Fljótsdalsstöð, Guðþjónusta verður haldin í klausturrústunum í Skriðuklaustri, hljómsveitin Ylja spilar í Skriðuklaustri kl. 13 og síðan fara Þristarleikarnir fram, en þar verður keppt í fjárdrætti, rababaraspjótkasti og pokahlaupi.

Síðar um kvöldið verður grillveisla og kvöldvaka á Óbyggðasetrinu. Æskilegt er að skrá þátttöku í síma 440-8822.
Annars má fræðast nánar um dagskrá Ormsteitis á heimasíðu hátíðarinnar.

Grettir lifnar við með Einari Kárasyni og Elfari Loga Hannessyni
Einar Kárason, rithöfundur, og Elfar Logi Hannesson, leikari, leiða saman hesta sína og leika eina þekktustu Íslendingasöguna, Grettis sögu Ásmundarsonar. Einar Kárason hefur leik og fjallar um Gretti á sinn magnaða hátt en Einar er mikll sögumaður sem unun er að hlýða á. Að Einars þætti loknum mun Elfar Logi Hannesson sýna einleikinn Grettir.

Einar og Elfar koma fram laugardaginn 22. ágúst klukkan 17:00 í Frystiklefanum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og sunnudaginn 23. ágúst klukkan 16:30 í Baðstofunni í Óbyggðasetrinu á Egilsstöðum í Fljótsdal.

Horfðu á eldgos úr hægindastólnum heima
Graham Durant, prófessor og yfirmaður ástralska vísindasafnsins í Canberra verður með erindi í spjallformi í Breiðdalssetri á laugardag. Yfirskrift erindisins er „Fylgst með eldfjöllum í gegnum veraldarvefinn“ (e. Armchair volcano watching).

Þar mun hann tala um hvernig hægt sé að fylgjast með eldfjöllum og fleiri atburðum úr hægindastólnum heima. Spjallið hefst kl. 17.

Brúarteiti SKAUST
SKAUST heldur formlega vígslu og opnun á nýrri brú félagsins, á æfinga- á félagssvæði þess að Þuríðarstöðum. Þar verður haldin stutt kynning og starfsemi félagsins og deildum þess.

Boðið verður upp á vörukynningar frá Veiðiflugunni og Veiðihúsinu Slakka, auk þess sem áhugasamir geta reynt sig í bogfimi og leirdúfu. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á holulæri og veitingar að hætti SKAUST.

Sportið
Vodafone Open Ormsteitismótið verður á Ekkjufellsvelli á laugardag. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs og skráning er aðeins á golf.is.

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að Leiknir og Huginn mætast í kvöld í Fjarðabyggðarhöllinni í toppslag 2. deildar karla. Leikur hefst þar kl. 18:30 og á sama tíma hefst leikur Fjarðabyggðar og Sindra í 1. deild kvenna, en með því að ná stigi í leiknum tryggir Fjarðabyggð sér annað sæti riðilsins.

Höttur tekur einnig á móti Ægismönnum frá Þorlákshöfn á Vilhjálmsvelli kl. 14 á laugardag. Önnur lið leika á útivelli.

Göngugarpar geta farið á Hoffell með Ferðafélagi Fjarðamanna og Göngufélag Suðurfjarða á laugardag. Mæting er kl. 10 við Hólagerði í Fáskrúðsfirði, en þaðan er gengið á Hoffellið, sem er 1101 m.

Góða helgi!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar