„Vinnur náttúruform í grafík"

rikhardur valtengojer webGrafíklistamaðurinn Ríkharður Valtingojer tók nýverið þátt í Ólafsvökusýningu sem haldin var í Listasafninu í Þórshöfn í Færeyjum.

Ríkharður, sem er frá Austurríki, stundaði nám í myndlista- og handíðaskóla í Graz og útskrifaðist með meistaragráðu úr Listaháskólanum í Vínarborg árið 1960.

Ríkharður hefur verið búsettur á Íslandi síðan árið 1960 og á Stöðvarfirði frá því 1985. Hann er kvæntur Sólrúnu Friðriksdóttur og saman eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn.


Bauð sínum gamla lærimeistara

Ólafsvökusýningin er samsýning færeyskra listamanna og er haldin ár hvert í tengslum við Ólafsvöku. Sýningarstjóri að þessu sinni var Oggi Lamhauge og bauð hann nokkrum listamönnum að vera með á sýningunni, meðal annars Ríkharði, sínum gamla lærimeistara, en Lamhauge stundaði grafíknám hjá Ríkharði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á sínum tíma.

Á sýningunni voru 35 listamenn með fjölbreytt verk – málverk, grafíkverk, teikningar, skúlptúra, textílverk og innsetningar. Ríkharður sýndi 24 grafíkmyndir (mezzotintur) og meðan á sýningunni stóð hélt hann námskeið í mezzotintu-tækni fyrir færeyska listamenn.


Tekur þátt í sýningum um allan heim

Ríkharður hefur verið afkastamikill í list sinni undanfarin ár og aðallega unnið í litógrafíu (steinþrykki) og mezzotintutækni.
Ríkharður er mjög virtur í grafíkheiminum og tekur á hverju ári þátt í mörgum alþjóðlegum grafíksýningum og á núna verk á sýningum í Rússlandi, Búlgaríu, Japan, Portúgal og fleiri löndum.

„Verkin mín hafa tekið miklum breytingum gegnum árin. Ég hef unnið í grafík síðan 1975 en þar áður var ég eingöngu í málverkinu.
Mér finnst grafíkin mjög spennandi og með marga útfærslumöguleika. Í dag vinn ég aðallega með náttúruform sem ég breyti eftir mínu höfði sem gefur þeim nýja merkingu.

Dómnefndirnar sem velja inn verkin eru mjög strangar og aðeins 10-20% af þeim listamönnum sem senda inn verk komast að. Því eru alþjóðlegar sýningar afar góður mælikvarði fyrir mig til þess að átta mig á því hvar ég stend í listinni.

Ég á fullkomið grafíkverkstæði á Stöðvarfirði og þar er dásamlegt að vinna í fullkominni ró og friði," segir Ríkharður.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar