Vildi gera sína útgáfu af „afasnögum"
![hulda edvaldsdottir10](/images/stories/news/folk/hulda_edvaldsdottir10.jpg)
Hulda segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á hönnun og þegar Fræðslunetið bauð upp á tveggja anna hönnunarnámskeið veturinn 2009 skráði hún sig til leiks og sér ekki eftir því, en þar kviknaði hugmyndin að Gibba gibb.
Hulda segist hafa verið ákveðin í að gera eitthvað úr hornum og fljótlega kom hugmyndin til hennar – að vinna snaga út frá hugmynd afa hennar, Jóns Aðalsteins Stefánssonar frá Möðrudal, en hann útbjó snaga úr geitahornum sem fest voru á spýtufjöl.
„Ég hef alltaf verið svo hrifin af snögunum hans afa, hann nýtti efnið sem til féll og smíðaði úr því fallega nytjahluti. Mér datt því í hug að gera mína útgáfu af „afasnögum". Hann var ótrúlega handlaginn og bjó oftar en ekki til það sem vantaði á heimilið, hurðarhúna úr beinum, handföng og skepti, já og byggði meira að segja kirkjuna og gamla húsið í Möðrudal," segir Hulda.
Átti aldrei að fara í framleiðslu
Hulda þróaði snaga sem samanstóð af hálfkúlu úr trefjaplasti og tveimur hornum.
„Þetta átti aldrei að fara í sölu, það bara þróaðist þannig. Ég hitti vöruhönnuði í skólanum sem voru hrifnir af hugmyndinni. Svo fóru snagarnir á sýningu í Sláturhúsinu, á Hönnunarmars í Reykjavík og þaðan var mér boðið á sýningu í Þýskalandi, í tenglsum við íslensku bókamessuna þar. Þannig fór boltinn að rúlla en þeir hafa verið til í Húsi handanna á Egilsstöðum, Hrím í Reykjavík og í Kraum, bæði á Akureyri og í Reykjavík."
Nafnið Gibba gibb segir Hulda að sé komið frá Herborgu systur hennar sem stakk upp á því í upphafi, en hún átti lamb með því nafni í æsku.
Hulda hefur þróað snagana í gegnum tíðina, bæði prófað sig áfram með liti og einnig nýja lögun.
„Svartur, hvítur og appelsínugulur hafa verið vinsælustu litirnir, en í nýjustu gerðinni fá hornin að njóta sín eins og þau eru og einungis mattlökkuð. Þau verða æ vinsælli enda lambshornin falleg frá náttúrunnar hendi."
Hulda hefur einnig gert „eftirlíkingu af afasnaga" – lambshorn á ljósblárri spýtu, þar sem hún notar sama lit og afi hennar forðum. Upphaflega ætlaði hún aðeins að gera einn fyrir sjálfa sig, en þeir spurðust út og seldust strax upp.
Aðspurð um framhaldið segir Hulda: „Mig langar mikið til að gera eitthvað meira en mér hefur ekki gefist tími til þess hingað til. Það er þó aldrei að vita nema það komi eitthvað nýtt frá mér einhvern daginn."
![hulda edvaldsdottir1](/images/stories/news/folk/gibbagibb/hulda_edvaldsdottir1.jpg)
![hulda edvaldsdottir10](/images/stories/news/folk/gibbagibb/hulda_edvaldsdottir10.jpg)