Bláklukkur og Eilífðir
![skemmtikvold valaskjalf 0081 web](/images/stories/news/2014/menningarvaka_april14/skemmtikvold_valaskjalf_0081_web.jpg)
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur þar staðið hvað fremst í flokki og nú nýverið kom til að mynda út á vegum félagsins fimmtánda bókin í bókaflokknum Austfirsk ljóðaskáld. Hún nefnist Þar sem bláklukkan grær og hefur að geyma ljóð eftir Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur.
Jónbjörg var mörgum Austfirðingum að góðu kunn. Hún var fædd að Bjargi á Borgarfirði eystra árið 1931. Að lokinni skólagöngu stofnaði hún heimili með manni sínum, Sigurði Óskari Pálssyni, og bjuggu þau fyrst á Borgarfirði en síðar á Eiðum og Egilsstöðum. Þau hjónin létust bæði árið 2012.
Útgáfuhóf var haldið í Hlymsdölum á Egilsstöðum þann 14. ágúst sl. sem var fæðingardagur höfundar. Alls komu þar rúmlega hundrað gestir og var mikil dagskrá, bæði upplestur og tónlistarflutningur í umsjón fjölskyldu Jónbjargar, en það voru einmitt börn þeirra hjóna sem söfnuðu saman ljóðum móður sinnar og unnu að útgáfunni í samstarfi við félagið.
Áralöng útgáfusaga
Saga bókaútgáfu á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi spannar nú hátt í 17 ár. Fyrsta bókin, Raddir að austan, sem var safn ljóða eftir Austfirðinga, kom út árið 1999 og síðan kom fyrsta bókin í framangreindum bókaflokki út árið 2001. Fáskrúðsfirðingurinn Magnús Stefánsson hefur veitt félaginu forstöðu allt frá stofnun þess. Hann segir að bókaútgáfan hafi gengið vel. Í raun hafi ekki verið áætlanir um að halda útgáfu áfram eftir fyrstu bókina en hugmyndin að bókaflokknum hafi fæðst og þetta hafi síðan orðið að minnsta kosti ein bók á ári.
„Við hefðum getað gefið út mikið fleiri bækur, en við höfum farið rólega í þetta. Það hefur ekki verið neitt kapp í útgáfunni heldur reynum við frekar að vanda það sem er gert. Það snýst líka um fjárhaginn. Ef bækurnar verða fleiri fara þær að éta hver frá annarri. Við höfum líka notið góðra styrkja, oft frá Menningarráði Austurlands, en þó ekki alltaf. En það er mikilvægt að geta fengið slíka styrki.“
Auk bókaflokksins Austfirsk ljóðaskáld hefur félagið gefið út aðrar bækur og er að sögn Magnúsar það nokkuð tilviljunum háð hvenær þessar svokölluðu aukabækur líta dagsins ljós.
„Við höfum látið það ráðast af því hvenær okkur þykir lag. Árið 2009 urðu aukabækurnar til dæmis tvær og allt í allt eru bækurnar orðnar 27 talsins.“
Gæðaljóð Guttesen
Félagið gaf út eina aukabók í ár sem nefnist Eilífðir og geymir úrval ljóða eftir Kristian Guttesen. Kristian var um hríð búsettur á Egilsstöðum og hefur tekið virkan þátt í starfi Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Skáldskaparferill hans spannar nú 20 ár og hefur hann sent frá sér níu bækur, auk hins nýútkomna úrvals og einnar bókar með úrvali ljóða hans þýddum á ensku. Í bókinni er að finna valin ljóð úr öllum eldri bókum og einnig ljóð sem birst hafa í tímaritum. Hún veitir því góða sýn yfir feril skáldsins.
Magnús segir ekki sjálfgefið að útgáfustarfsemi félagsins haldi áfram og einhvern tíma verði til dæmis hæfilegt að setja endapunkt á bókaflokkinn Austfirsk ljóðskáld. En ljóðaunnendur þurfa þó ekki að örvænta því að félagið áformar að gefa út þrjár bækur í tilefni af 20 ára afmæli félagsins á næsta ári. Þeirra á meðal verður 16. bókin í bókaflokknum og einnig er áformað að gefa út ljóðasafn ungra skálda á Austurlandi.
Mynd: Kristian Guttesen les úr verkum sínum. GG